Kringum Mt Blanc með Millu og Krillu

Kringum Mt Blanc með Millu og Krillu

Erfiðleikastig
Miðlungs, Krefjandi

  • 1
  • 2
  • 3
  • 4
  • 5

Hvað er innifalið
leiðsögn, gisting með hálfu fæði, ferðir til og frá fugvelli í Genf

Lengd ferðar
9 dagar

Upplifðu eina fallegustu gönguleið heims, skemmtilegan félagsskap, dásamlegan mat, jóga og teygjur í lok göngu og bara almenna gleði

Í júní 2020 bjóða leiðsögukonurnar Emelía Blöndal og Kristín Jóna Hilmarsdóttir (Milla og Krilla) í samstarfi við Íslenska Fjallaleiðsögumenn upp á dásamlega kvennaferð umhverfis Mont Blanc þar sem ferðalangar njóta þess besta sem þessi fræga gönguleið hefur upp á að bjóða. Gengið er umhverfis hið fornfræga fjall Mont Blanc, þar sem heildarvegalengdin er tæpir 100 km og heildarhækkunin rúmir 7km. Ferðin byrjar og endar í Chamonix dalnum í Frakklandi en leiðin liggur að auki um Ítalíu og Sviss því Mont Blanc stendur á mörkum þessara þriggja landa. Gengið er um dali og fjallaskörð þar sem hver dagur býður upp á nýja sýn á Mont Blanc.

Löng hefð er fyrir því að ganga umhverfis Fjallið Hvíta og gott stígakerfi tengir saman skála og þorp. Við verðum að meðaltali á göngu í uþb 1500 til 2000 metra hæð en hækkum okkur yfir skörð í ríflega 2500 metrana. Samkvæmt dagskránni sem hér fylgir þá er í vændum stórskemmtileg og gönguferð umhverfis þetta tilkomumikla fjall.

Allur aðbúnaður á göngunni er mjög góður, gist er í skálum og gistiheimlum, morgunverður og kvöldverður er innifalinn.

Það er ekki farangursfluttningur í þessari ferð en Milla og Krilla munu fara nákvæmleg yfir það litla sem þarf að taka með af hreinum fötum þannig að bakpokarnr fari ekki yfir 8 kg.  

Dagskrá

Dagur 1.  - Ísland – Genf – Chamonix                   
Ferðin hefst á flugvellinum í Genf þaðan sem hópnum er ekið til bæjarins Chamonix hvar gist verður þessa fyrstu nótt í Ölpunum. Gisting á gistihúsi í  2gja manna herbergjum. 

Dagur 2.  - Carmonix – Bellevue – Col Tricot – refuge de Miage – Truc – Les Contamines-Montjoie 
Við tökum kláfinn upp til Bellevue (1780 m) þar sem við hefjum gönguna umhverfis þetta magnaða fjallalendi með, krúnudjásnið Mont Blanc sem lengi vel var talinn hæsti tindur Evrópu. Leiðin liggur eftir stígum upp að Tricot skarði (2120 m) um grónar hlíðar, í gegnum skóg og yfir hengibrú og  við nýtum að sjálfsögðu öll tækifæri til þess að njóta stórbrotinnar fjallasýnar áður en við hefjum lækkun niður úr Tricot skarði til Miage þorpsins. Þar er gott að staldra við og fá sér hressingu á verönd Miage skálans (1559 m) sem býður upp á fallegt útsýni til Miage jökulsins í dalbotninum. Dagurinn endar með göngu upp á Truc hæðina (1811 m) og í niður í þorpið Contamines-Montjoie þar sem við gistum á gistihúsi í nótt í tveggjamanna herbergjum. Morgunverður og kvöldverður á gististað. Hálft fæði (morgunverður og kvöldverður)
5 - 6 klst ganga, hækkun: 700 m / lækkun: 1200 m. 

Dagur 3.  - Les Contamines-Montjoie – chalet de Nant  Borrant – Col de la Croix-du-Bonhomme - Chapieux - Refuge Mottet
Dagurinn hefst með stuttum akstri upp að Notre Dame de la Gorge kirkjunni þaðan sem við göngum upp Armancette dalinn sem þrengist eftir því sem ofar dregur. Ofarlega í dalnum göngum við yfir brú sem var byggð á velmektardögum rómverska heimsveldisins og stendur merkilegt nokk enn. Við höldum áfram og getum fengið okkur hádegishressingu í Nant Borrant skálanum. Ef kappið er mikið er næsti skáli uþb klukkustundar gang í burtu undir Balme skarðinu og þar má líka kasta mæðinni og snæða hádegisverðinn. Við höldum svo áfram upp í hið fræga Bonhomme skarð (2329 m) og yfir að skálanum Crux de la Bonhomme þaðan sem getur að líta til fjalla nær og fjær og því ekki úr vegi að stoppa og fá sér kaffisopa. Dagurinn endar svo með göngu niður til smáþorpsins Chapieux þar sem bíll bíður okkar og ekur okkur inn að skálanum Refuge de Mottet þar sem við gitum í nótt. Hálft fæði
5 - 6 klst ganga, hækkun: 1300 m / lækkun : 975 m. 

Dagur 4.  - Refuge de Mottet – Col de la Seigne – rifugio Elisabetta – Courmayeur – Rifugio Bonatti*
Dagurinn hefst með göngu upp í Seigne skarðið sem skilur að Frakkland og Ítalíu. Leiðin upp í skarðið er um krákustíga og hreint ekki eins erfið og hún virðist vera þegar horft er upp í skarðið. Úr skarðinu er ótrúlegt útsýni yfir Veny dalinn framundan og suðaustur hlið Mont Blanc og þá tilkomumiklu tinda sem þar er að finna. Eftir að hafa drukkið þetta magnaða útsýni í okkur höldum við niður dalinn og getum stoppað í skálanum Elisabetta til þess að fá okkur hádegismat. Frá Elisabetta skálanum er uþb klukkustundar gangur niður að La Viseille þar sem við tökum strætó niður til Courmayeur, sem að sönnu má kalla hina ítölsku háborg Alpanna.  Við getum tekið snúning í borginni áður en við tökum næsta strætó inn Ferret dalinn og göngum síðan upp í Bonatti skálann þar sem við gistum í nótt. Frá Bonatti er hægt að virða fyrir sér Mont Blanc, eða Monte Bianco eins og fjallið heitir upp á ítölskuna. Hálft fæði
6 - 7 klst ganga, hækkun: 1000 m/ lækkun : 1000 m.

Dagur 5.  - Rifugio Bonatti – rifugio Elena – Grand Col Ferret – Champex
Við höldum ferð okkar áfram inn Ferret dalinn og lækkum okkur eftir tilkomumiklum stíg til la Vachey (1650 m) með ómótstæðilegt útsýni yfir brattar hlíðar Mont Blanc. Við höldum áfram upp á við og komun næst að Elena skálanum þar sem síðasti séns er að fá sér ekta ítalskan espresso bolla. Við höldum svo upp í Grand Ferret skarðið sem skilur að Ítalíu og Sviss. Útsýnið er tilkomumikið yfir Grandes Jorasses og Mont Dolent fjöllin sem hverfa sjónum þegar við lækkum okkur niður í svissneska Ferret dalinn. Við La Peule getum við kastað mæðinni og fengið okkur kaffi áður en við göngum síðasta spölinn niður að Ferret (1705) þaðan sem við tökum strætó að bænum Champex (1466 m) þar sem við gistum á gistihúsi. Hálft fæði
5 - 6 klst ganga, hækkun: 900 m. Lækkun : 850 m.

Dagur 6.  - Champex – Fenêtre d’Arpette – Trient – Tre le Champ
Við höldum áfram og könnum í dag efri hluta þessa magnaða fjallasvæðis og þessi dagur gæti auðveldlega orðið eftirminnilegasti göngudagur ferðarinnar. Ef veður og aðstæður leyfa ætlum við að taka stefnuna upp í Fenetre d´ Arpette, eitt tilkomumesta skarð fjallahringsins. Gangan upp í skarðið er þægileg í fyrstu en verður meira krefjandi er á líður og farið um mjög brattar og grófar urðir til þess að ná upp í skarðið. Þar getur verið býsna vindasamt og því ráða aðstæður hvort skarðið verður fyrir valinu eða haldið með hlíðum umhverfis skarðið til Col del la Forclaz. Úr skarðinu liggur leiðin niður Trient dalinn og við njótum útsýnis yfir Trient jökulinn áður en við lækkum okkur niður til Trient. Dagurinn endar með örstuttri ökuferð yfir til smáþorpsins Tre le Champ sem er efst í Chamonix dalnum og séu veðurguðirnir okkur hliðhollir eigum við eftirminnilegt sólsetur í vændum. Hálft fæði
8 klst ganga, hækkun: 1250 m/ lækkun: 1450 m.

Dagur 7.  - Tre le Champ – Lac Blanc – La Flegere – Planpraz – Chamonix 
Þá er síðasti göngudagurinn runninn upp og hann er ekki af lakara taginu. Við höldum upp í friðlandið Aiguilles Rouges eftir tilkomumiklum göngustíg og okkar bíða nokkur ógleymanleg augnablik við stöðuvatnið Lac Blanc (2350 m). Við lækkum okkur svo niður til La Flegere með óviðjafnanlegt útsýni á tindana hinumegin í Chamonix dalnum og tökum kláfinn niður til Chamonix þar sem við gistum næstu 2 nætur. Gist á gistiheimili í 2gja manna herbergjum. Morgunverður.
5 klst ganga, hækkun: 1000 m / lækkun: 500 m.

Dagur 8.  - Chamonix
Heill dagur til þess að njóta þess sem Chamonix hefur upp á að bjóða. Hægt er að taka kláfinn upp í Aguille du Midi eða einfaldlega soga í sig bæjarstemninguna. Gist á gistiheimili í 2gja manna herbergjum. Morgunverður.

Dagur 9.  - Chamonix – Genf – Ísland 
Akstur til Genfar flugvallar fyrir flugið heim. Morgunverður.

Farþegar sjá sjálfir um flug til og frá Genf en Fjallaleiðsögumenn ráðleggja með flug og geta aðstoðað við flugbókanir sé þess óskað

Bóka ferð

Ferðina er hægt að bóka fyrir einstaklinga og hópa, vinsamlegast hafið samband fyrir frekari upplýsingar.

Currency Settings

Choose your currency

Please note that our currency exchange rate is taken from the Icelandic Central Bank and might differ slightly from your bank's currency rate. Additionally, all charges are made in Icelandic Krona (ISK).

Select currency:

Iceland Rovers - Search

Looking for something special?

Skráðu þig á póstlista Íslenskra Fjallaleiðsögumanna!

* verður að vera útfyllt

Hafa samband

This site is protected by reCAPTCHA and the Google Privacy Policy and Terms of Service apply.