Fjölskyldan á framandi slóðum

Fjölskyldan á framandi slóðum

Leiðsögumaður
Enskumælandi

Enskumælandi

Leiðsögumaður

Verð frá
135000 kr.

Erfiðleikastig
Hófleg

  • 1
  • 2
  • 3
  • 4
  • 5

Hvað er innifalið
allt nema flugið

Brottfarir
14. apríl 2019

Lengd ferðar
8 dagar

Hópastærð
hámark 12 manns

Ferð við allra hæfi um fjöll og fjörur Marokkó
Marokkó er kjörinn áfangastaður til þess að fara með fjölskylduna á vit ævintýra þar sem allir finna eitthvað við sitt hæfi. Þessi ferð liggur upp að rótum Atlasfjallanna þar sem við kynnumst menningu Berbanna sem þar búa og lærum að baka brauð. Svo höldum við niður að strönd Atlantshafsins þar sem við njótum lífsins í borginni Essaouira, lærum að sörfa og förum í gönguferð með ferfætlingum sem gjarnan eru kallaðir skip eyðimerkurinnar. Í lokin kynnumst við ritlist heimamanna og öngstrætum borgarinnar Marrakech. Þessi ferð er kjörin fyrir þá sem vilja skapa góðar minningar með sínum nánustu.

Lágmarks aldur: 5 - 6 ára

Dagskrá

Dagur 1 - Koma til Marrakech í Marokkó
Við komuna til Marrakech tekur staðarleiðsögumaður á móti ferðalöngum og ekur þeim á þægilega staðsett hótel í þessari framandi borg. Gisting  í tveggja manna herbergjum á hóteli með sundlaug. 

Dagur 2 - Akstur að Atlasfjöllunum, matargerð og stutt ganga í Ait Souka (2000 m)
Eftir morgunverð er sest upp í bíl og ekið í uþb 2 klukkustundir að Atlasfjöllunum. Í þorpinu Asni yfirgefum við malbikið og við tekur malarvegur upp í fjöllin. Við ökum um Mizan dalinn og sjáum fyrstu Berba þorpin þar sem húsagerð er allt öðruvísi en það sem við eigum að venjast en í stað steypu er leir helsta byggingarefnið. Árið 1995 komu mikil aurflóð niður þennan fallega dal sem enn má sjá merki um. Þorpið Imlil er síðasta þorpið í dalnum og þar endar vegurinn. Við leggjum því land undir fót og göngum í rúmlega hálftíma upp í litla þorpið Ait Souka þar sem við ætlum að gista. Á leiðinni getum við virt fyrir okkur gamla virkið, sem á máli innfæddra nefnist Kasbah, sem stendur ofan við Imlil og var breytt í tíbeskt hof árið 1997 þegar Hollywood kvikmyndin Kundun var í vinnslu á svæðinu.
Við komuna til Ait Souka förum við fyrst á gistihúsið okkar þar sem við munum gista næstu 2 næturnar. Af þaksvölunum er frábært útsýni til fjallatindanna og þaðan má sjá hæsta tind Norður Afríku Toubkal. Við snæðum hádegisverð og svo hefst fyrsta kennslustundin þar sem við spreytum okkur á því að baka marokkóskt brauð. Við byrjum á því að búa til deigið sem þarf svo að lyfta sér í uþb 2 klukkustundir áður en hægt er að baka það. Upplagt er að fara í stuttan göngutúr og skoða okkur betur um í þorpinu og á svæðinu ofan þess á meðan deigið lyftir sér. Við bökum svo brauðið þegar við komum tilbaka með konunum í eldhúsinu. Á berba máli heitir brauð khobz og er yfirleitt kringlótt og flatt með góðri skorpu. Í sveitunum eiga flestar fjölskyldur lítinn viðarofn til þess að baka brauðið sitt í en í borgunum fara margir með deigið sitt út í bæ og láta baka það í ofnum sem víða er að finna. Nýbakað brauðið bragðast svo einstaklega vel sem forréttur eða hluti af kvöldverðinum. Morgunverður, hádegisverður og kvöldverður. 2 – 3 klst ganga 

Dagur 3 - Ævintýri á gönguför – múlasnar, virki og baðhús
Bænakall heimafólks kann að vekja okkur fyrir birtingu en við þurfum ekki að fara á fætur strax heldur getum dormað þar til sólin kemur upp. Ef veður er gott má snæða morgunverðinn á þaksvölunum áður en við leggjum af stað í göngu dagsins. Við hittum múlasnana og hirða þeirra  og börnin geta annað hvort setið á múlasnabaki þar sem stígurinn er öruggur eða gengið samhliða þeim. Það eru ótal möguleikar í boði fyrir göngu dagsins og veðrið mun að mestu stjórna því hvert við förum. Einn valkostur er að ganga í gegnum skóglendi til þorpsins Aremd og svo áfram meðfram læknum sem liðast niður frá Sidi Chamharoun. Við snæðum hádegisverð á skuggsælum stað og getum svo stoppað í Toubkal virkinu og fengið okkur svaladrykk á heimleiðinni. Aðgangseyririnn að virkinu er 50 dirham og er drykkur innifalinn í verðinu. Ef sólir er farin að segja til sín og við orðin pínu þreytt er virkið frábær staður til þess að kasta mæðinni á skuggsælum stað þar sem hægt er að njóta útsýnisins yfir svæðið.
Við komuna í Ait Souka bíður næsta ævintýri okkar – bað að hætti heimafólks – Hammam. Hammam er mikilvægur hluti af marokkóskri menningu auk þess að vera staður þar sem fólk kemur til þess að baða sig er það líka staðurinn til þess að hlera hvað er að gerast í þorpinu eða einfaldlega hitta vini sína, ekki ólíkt því sem gerist í heitu pottunum okkar heima á Íslandi. Við komum hrein og strokin heim á gistihúsið í kvöldverðinn. Morgunverður, hádegisverður og kvöldverður. 4 – 5 klst ganga 

Dagur 4 - Akstur til Essaouira
Eftir morgunverð röltum við niður til þorpsins Imlil þar sem við setjumst upp í bíl og leggjum af stað niður að ströndinni og Atlantshafinu. Leiðin liggur í gegnum þorp og bæi og við stoppum og snæðum hádegisverð í einum þeirra. Við getum líka heimsótt Arganolíu fyrirtæki þar sem ýmsar vörur eru unnar úr Argan hnetum, sem vaxa í Marokkó og eru vörur úr þeim eftirsóttar víða um heim. Við komum til borgarinnar Essaouira og förum strax á hótelið þar sem við dveljum næstu dagana. Hótelið er aðeins 15 mínútna gang frá borgarmiðjunni og steinsnar frá ströndinni. 
Essaouira er heillandi borg með langa sögu og arkítektúr úr smiðju Berba, Frakka og Portúgala. Fiskveiðar eru undirstaða atvinnulífsins í borginni þó svo að alls kyns handverk og listiðnaður sæki á. Það er helst ljósið sem og óviðjafnanleg staðsetning borgarinnar sem dregur listafólk á staðinn. Ferðaiðnaður er líka í örum vexti og í borginni er að finna góð veitingahús og hótel. Flottustu hótelin er að finna í gömlum húsum frá 19. öldinni sem láta kannski lítið yfir sér utan frá séð en hafa að geyma stóra garða og svalir og eru að innan ævintýri líkust. Um leið og við höfum komið okkur fyrir á hótelinu getum við farið niður á strönd eða skoðað okkur um á aðaltorginu, jafnvel sest niður á einhverju kaffihúsinu og virt fyrir okkur mannlífið. Af torginu sér yfir höfnina og alla litlu bátana og sölubásana sem bjóða ferskasta fisk dagsins. Auðvitað er líka hægt að slappa af við sundlaugarbakka hótelsins. Gisting í tveggjamanna herbergjum. Morgunverður, hádegisverður og kvöldverður. 

Dagur 5 - Sörfað í öldum Atlantshafsins
Eftir morgunverðinn hefst ævintýri dagsins þegar við hittum sörf kennara sem afhendir okkur allt það sem við þurfum fyrir þetta spennandi ævintýri, blautbúninga, flotholt og sörfbretti. Við göngum niður á ströndina þar sem við fáum kennslu og leiðbeiningar um hvað sörf er og hvernig best er að takast á við þetta sport áður en við tökumst á við öldurnar. Aldurstakmark er 8 ár og allir þurfa að vera syndir. Eftir 2 stunda leik í öldum og á strönd eru flestir orðnir svangir og tilbúnir í hádegisverð. Eftirmiðdagurinn er frjáls og val um að halda til á ströndinni, skreppa inn í bæ á markaðinn eða einfaldlega slappa af á hótelinu. Essaouira býður upp á ótal möguleika bæði er hægt að villast í medínunni, elsta huta borgarinnar, þar sem er að finna ótal litlar götur með litlum búðum sem selja krydd og matvæli af ýmsum toga auk listmuna og handverks. Einnig er hægt að rölta eftir stíg meðfram strandlengjunni eða á ströndinni sjálfri, jafnvel leigja sér drómedara þar. Við enda strandarinnar eru rústir gamals virkis sem hafaldan hefur leikið grátt. Morgunverður, hádegisverður og kvöldverður

Dagur 6 - Skip eyðimerkurinnar og leikir á ströndinni
Eftir morgunverð er stutt ferð niður með ströndinni til Sidi Kaouki þar sem við hefjum ævintýri dagsins. Í Sidi Kaouki hittum við drómedarana og hirða þeirra og hefjum gönguna suðrábóginn. Ef við höfum heppnina með okkur, gætum við séð fólk að sörfa í öldunum. Drómedararnir eru allir með hnakk og allir fá að prófa hvernig það er að sitja á baki þessara stóru dýra sem kölluð hafa verið skip eyðimerkurinnar, einkum fyrir það hversu þolgóð og harðgerð þau eru á erfiðum ferðalögum um sandöldur eyðimerkurinnar þar sem ekki er deigan dropa af vatni að finna, oft svo dögum skiptir.
Eftir um það bil eins og hálfs tíma göngu komum við að höfða þar sem við breytum um stefnu og höldum til austurs í áttina frá hafi í gegnum kjarrlendi þar til við komum að litlu gistihúsi þar sem við setjumst niður og snæðum hádegisverð. Eftir hádegisverðinn er haldið til baka til Sidi Kaouki eftir ströndinni í rólegheitum og hægt að bregða á leik með frisbí eða bolta á leiðinni. Í Sidi Kaouki er að finna litlar búðir og kaffihús þar sem hægt er að fá sér svaladrykk. Við kveðjum drómedarana og höldum heim á hótel og getum nýtt það sem eftir er dags annað hvort á ströndinni eða við sundlaugina. Morgunverður, hádegisverður og kvöldverður. 4 – 5 klst ganga

Dagur 7 - Akstur til Marrakech, leturgerð og gamli bærinn
Eftir morgunverð og jafnvel stuttan sundsprett á hótelinu kveðjum við þennan dásamlega stað og ökum til Marrakech. Við komuna þangað förum við á hótel og snæðum hádegisverð og getum svo notið lífsins í fallegum hótelgarðinum og sundlauginni þar. Seinnipartinn göngum við inn í gamla bæinn og fáum þar leiðsögn í leturgerð enda er arabískan talsvert frábrugðin því letri og stafrófi sem við eigum að venjast. Við fræðumst um sögu arabískrar leturgerðar og fáum að spreyta okkur á því að skrifa með sérstökum pennum. Síðast en ekki síst mun kennarinn skrifa nöfnin okkar með þessari framandi leturgerð á þar til gerð blöð sem við fáum svo  með okkur. Eftir þessa skemmtilegu kynningu á leturgerð heimafólks höfum við tíma til þess að skoða okkur betur um í gamla bænum þar sem göturnar eru þröngar en iða af lífi. Við snæðum svo kvöldverð á veitingahúsi með leiðsögumanninum okkar og þar sem þetta er síðasta kvöldið er veisla í vændum. Gisting á hóteli í tveggja manna herbergi. Morgunverður, hádegisverður og kvöldverður.

Dagur 8 - Haldið heim
Eftir morunverð er okkur ekið á flugvöllinn og ferðin heim hefst. Morgunverður

Bóka ferð

Ferðina er hægt að bóka fyrir einstaklinga og hópa, vinsamlegast hafið samband fyrir frekari upplýsingar.

Currency Settings

Choose your currency

Please note that our currency exchange rate is taken from the Icelandic Central Bank and might differ slightly from your bank's currency rate. Additionally, all charges are made in Icelandic Krona (ISK).

Select currency:

Iceland Rovers - Search

Looking for something special?

Skráðu þig á póstlista Íslenskra Fjallaleiðsögumanna!

* verður að vera útfyllt

Hafa samband

This site is protected by reCAPTCHA and the Google Privacy Policy and Terms of Service apply.