Frakkland - Mont Blanc - IMG1124

Stórbrotin ganga í kring um Mont Blanc fjallgarðinn - Frakkland, Ítalía og Sviss

Erfiðleikastig:

AUÐVELT

ERFITT

Verð frá:  

Fullorðinn: 250000 kr

 • JAN
 • FEB
 • MAR
 • APR
 • MAY
 • JUN
 • JUL
 • AUG
 • SEP
 • OCT
 • NOV
 • DEC

Brottfarir: 16. júní 2018

Lengd: 9 dagar

Hópastærð: 8 - 12

Dagleiðir: 4 - 6 klst

Athugið: Verð miðast við 8 farþega og er án flugs

 • Lýsing ferðar

  Stórbrotin gönguleið um dali og skörð umhverfis Mont Blanc

  16. - 24. júní 2018

  Leiðsögn: Vilhjálmur Árnason

  Verð: 250.000 kr 

  Í júní 2018 bjóða Fjallaleiðsögumenn upp á snarpa ferð umhverfis Mont Blanc þar sem ferðalangar njóta þess besta sem þessi fræga gönguleið hefur upp á að bjóða. Gengið er umhverfis hið fornfræga fjall Mont Blanc, þar sem heildarvegalengdin er tæpir 100 km og heildarhækkunin rúmir 7km. Ferðin byrjar og endar í Chamonix dalnum í Frakklandi en leiðin liggur að auki um Ítalíu og Sviss því Mont Blanc stendur á mörkum þessara þriggja landa. Gengið er um dali og fjallaskörð þar sem hver dagur býður upp á nýja sýn á Mont Blanc.

  Löng hefð er fyrir því að ganga umhverfis Fjallið Hvíta og gott stígakerfi tengir saman skála og þorp. Við verðum að meðaltali á göngu í uþb 1500 til 2000 metra hæð en hækkum okkur yfir skörð í ríflega 2500 metrana. Samkvæmt dagskránni sem hér fylgir þá er í vændum stórskemmtileg og gönguferð umhverfis þetta tilkomumikla fjall. Á göngunni er gist og borðað í fjallaskálum og gistihúsum sem léttir pokana talsvert því ekki er nauðsynlegt að hafa með sér svefnpoka. Allur farangur annar en dagpokar er fluttur á milli skála

   

   

 • Dagskrá ferðar

  Dagur 1/ Ísland – Genf – St Gervais le Fayet                  
  Ferðin hefst á flugvellinum í Genf þaðan sem hópnum er ekið til bæjarins St Gervais le Fayet hvar gist verður þessa fyrstu nótt í Ölpunum. Gisting á gistihúsi í  2gja manna herbergjum og kvöldverður.
  Dagur 2/ Saint Gervais le Fayet – Bellevue – Col Tricot – refuge de Miage – Truc – Les Contamines-Montjoie 
  Við tökum hinn sögufræga Mt Blanc sporvagn upp til Bellevue (1780 m) þar sem við hefjum gönguna umhverfis þetta magnaða fjallalendi með, krúnudjásnið Mont Blanc sem lengi vel var talinn hæsti tindur Evrópu. Leiðin liggur eftir stígum upp að Tricot skarði (2120 m) um grónar hlíðar, í gegnum skóg og yfir hengibrú og  við nýtum að sjálfsögðu öll tækifæri til þess að njóta stórbrotinnar fjallasýnar áður en við hefjum lækkun niður úr Tricot skarði til Miage þorpsins. Þar er gott að staldra við og fá sér hressingu á verönd Miage skálans (1559 m) sem býður upp á fallegt útsýni til Miage jökulsins í dalbotninum. Dagurinn endar með göngu upp á Truc hæðina (1811 m) og í niður í þorpið Contamines-Montjoie þar sem við gistum á gistihúsi í nótt í tveggjamanna herbergjum. Morgunverður og kvöldverður á gististað. Flutningur á farangri öðru en dagpokum.
  6 - 7 klst ganga, hækkun: 1300 m / lækkun: 660 m. 
  Dagur 3/ Les Contamines-Montjoie – chalet de Nant  Borrant – Col de la Croix-du-Bonhomme - Chapieux - Refuge Mottet
  Dagurinn hefst með stuttum akstri upp að Notre Dame de la Gorge kirkjunni þaðan sem við göngum upp Armancette dalinn sem þrengist eftir því sem ofar dregur. Ofarlega í dalnum göngum við yfir brú sem var byggð á velmektardögum rómverska heimsveldisins og stendur merkilegt nokk enn. Við höldum áfram og getum fengið okkur hádegishressingu í Nant Borrant skálanum. Ef kappið er mikið er næsti skáli uþb klukkustundar gang í burtu undir Balme skarðinu og þar má líka kasta mæðinni og snæða hádegisverðinn. Við höldum svo áfram upp í hið fræga Bonhomme skarð (2329 m) og yfir að skálanum Crux de la Bonhomme þaðan sem getur að líta til fjalla nær og fjær og því ekki úr vegi að stoppa og fá sér kaffisopa. Dagurinn endar svo með göngu niður til smáþorpsins Chapieux þar sem bíll bíður okkar og ekur okkur inn að skálanum Refuge de Mottet þar sem við gitum í nótt. Morgunverður og kvöldverður á gististað. Flutningur á farangri öðru en dagpokum.
   6 - 7 klst ganga, hækkun: 1300 m / lækkun : 750 m. 
  Dagur 4/ Refuge de Mottet – Col de la Seigne – rifugio Elisabetta – Courmayeur – Rifugio Bonatti*
  Dagurinn hefst með göngu upp í Seigne skarðið sem skilur að Frakkland og Ítalíu. Leiðin upp í skarðið er um krákustíga og hreint ekki eins erfið og hún virðist vera þegar horft er upp í skarðið. Úr skarðinu er ótrúlegt útsýni yfir Veny dalinn framundan og suðaustur hlið Mont Blanc og þá tilkomumiklu tinda sem þar er að finna. Eftir að hafa drukkið þetta magnaða útsýni í okkur höldum við niður dalinn og getum stoppað í skálanum Elisabetta til þess að fá okkur hádegismat. Frá Elisabetta skálanum er uþb klukkustundar gangur niður að La Viseille þar sem við tökum strætó niður til Courmayeur, sem að sönnu má kalla hina ítölsku háborg Alpanna.  Við getum tekið snúning í borginni áður en við tökum næsta strætó inn Ferret dalinn og göngum síðan upp í Bonatti skálann þar sem við gistum í nótt. Frá Bonatti er hægt að virða fyrir sér Mont Blanc, eða Monte Bianco eins og fjallið heitir upp á ítölskuna. Morgunverður og kvöldverður á gististað.
  5 - 6 klst ganga, hækkun: 1100 m/ lækkun : 1000 m.
  Dagur 5/  Rifugio Bonatti – rifugio Elena – Grand Col Ferret – Champex
  Við höldum ferð okkar áfram inn Ferret dalinn og lækkum okkur eftir tilkomumiklum stíg til la Vachey (1650 m) með ómótstæðilegt útsýni yfir brattar hlíðar Mont Blanc. Við höldum áfram upp á við og komun næst að Elena skálanum þar sem síðasti séns er að fá sér ekta ítalskan espresso bolla. Við höldum svo upp í Grand Ferret skarðið sem skilur að Ítalíu og Sviss. Útsýnið er tilkomumikið yfir Grandes Jorasses og Mont Dolent fjöllin sem hverfa sjónum þegar við lækkum okkur niður í svissneska Ferret dalinn. Við La Peule getum við kastað mæðinni og fengið okkur kaffi áður en við göngum síðasta spölinn niður að Ferret (1705) þaðan sem við tökum strætó að bænum Champex (1466 m) þar sem við gistum á gistihúsi. Morgunverður og kvöldverður á gististað. Flutningur á farangri öðru en dagpokum.
  6 - 7 klst ganga, hækkun: 900 m. Lækkun : 900 m. 
  Dagur 6/ Champex – Fenêtre d’Arpette – Trient – Tre le Champ
  Við höldum áfram og könnum í dag efri hluta þessa magnaða fjallasvæðis og þessi dagur gæti auðveldlega orðið eftirminnilegasti göngudagur ferðarinnar. Ef veður og aðstæður leyfa ætlum við að taka stefnuna upp í Fenetre d´ Arpette, eitt tilkomumesta skarð fjallahringsins. Gangan upp í skarðið er þægileg í fyrstu en verður meira krefjandi er á líður og farið um mjög brattar og grófar urðir til þess að ná upp í skarðið. Þar getur verið býsna vindasamt og því ráða aðstæður hvort skarðið verður fyrir valinu eða haldið með hlíðum umhverfis skarðið til Col del la Forclaz. Úr skarðinu liggur leiðin niður Trient dalinn og við njótum útsýnis yfir Trient jökulinn áður en við lækkum okkur niður til Trient. Dagurinn endar með örstuttri ökuferð yfir til smáþorpsins Tre le Champ sem er efst í Chamonix dalnum og séu veðurguðirnir okkur hliðhollir eigum við eftirminnilegt sólsetur í vændum. Morgunverður og kvöldverður á gististað. Flutningur á farangri öðru en dagpokum.
  8 klst ganga, hækkun: 1200 m/ lækkun: 1400 m.
  Dagur 7/ Tre le Champ – Lac Blanc – La FlegerePlanpraz – Chamonix 
  Þá er síðasti göngudagurinn runninn upp og hann er ekki af lakara taginu. Við höldum upp í friðlandið Aiguilles Rouges eftir tilkomumiklum göngustíg og okkar bíða nokkur ógleymanleg augnablik við stöðuvatnið Lac Blanc (2350 m). Við lækkum okkur svo niður til La Flegere með óviðjafnanlegt útsýni á tindana hinumegin í Chamonix dalnum og tökum kláfinn niður til Chamonix þar sem við gistum næstu 2 nætur. Gist á gistiheimili í 2gja manna herbergjum. Morgunverður á gististað. Flutningur á farangri öðru en dagpokum.
  5.30 klst ganga, hækkun: 1150 m / lækkun: 750 m.
  Dagur 8 Chamonix
  Heill dagur til þess að njóta þess sem Chamonix hefur upp á að bjóða. Hægt er að taka kláfinn upp í Aguille du Midi eða einfaldlega soga í sig bæjarstemninguna. Gist á gistiheimili í 2gja manna herbergjum. Morgunverður á gististað.
  Dagur 9/ Chamonix – Genf – Ísland 
  Akstur til Genfar flugvallar fyrir flugið heim. Morgunverður á gististað

   * Ekki er bílfært að Bonatti skála svo að farangur bíður okkar í Champex

  Farþegar sjá sjálfir um flug til og frá Genf en Fjallaleiðsögumenn ráðleggja með flug og geta aðstoðað við flugbókanir sé þess óskað

 • Almennar Upplýsingar

  ALMENNAR UPPLÝSINGAR

  Chamonix: Bærinn Chamonix er í 1035m hæð en nokkrir litlir bæir eru í Chamonix dalnum, t.d. Les Houches, Le Tour og Argentier. Svæðið tilheyrir Rhone-Alps héraðinu og er í Haute-Savoie sýslunni, sem er eins og mörg önnur svæði Frakklands þekkt fyrir vín og reyktar svínapylsur. Fjölmarga veitingastaði er að finna í Chamonix og þar búa um 10.000 manns. Chamonix er þekkt fyrir að vera höfuðstaður heimsins fyrir fjallamennsku, gönguferðir, klifur, fjallahjólaiðkun og allar tegundir af vetraríþróttum. Alpasafnið er við sama torg og Saint-Michel kirkjan og er vel þess virði fyrir þá sem vilja rifja upp sögu nútíma fjallamennsku, frá 1786 til dagsins í dag, að heimsækja safnið. Um þessar mundir er þar mjög áhugaverð sýning um jökla og áhrif hlýnandi veðurfars sem vert er að kíkja á. Upplýsingamiðstöð ferðamála er við sama torg og kirkjan og safnið.

  http://www.chamonix.fr/animationculture/museealpin.html#anchor

  Mont Blanc var lengi vel talið hæsta fjall Evrópu og var vel komið að þeim titli enda geysilega tígulegt og mikilfenglegt fjall. Árið 1786 var Mt. Blanc fyrst klifið af þeim félögum Balmat og Paccard. Í kjölfarið myndaðist hefð fyrir ferðum á fjallið þar sem heimamenn sáu um að leiðsegja aðkomufólk á tindinn. Fyrsta konan til þess að komast á tindinn var Marie Paradis árið 1808. Að meðaltali ganga um 20.000 manns á tindinn árlega og því mætti ætla að um auðveldan tind væri að ræða. Hins ber þó að geta að enginn ætti að vanmeta fjallið eða tindinn sjálfan enda eru hlutar leiðarinnar upp varasamir og full þörf á því að vera með fjallaleiðsögumann með í för. Leiðin í kringum Mt. Blanc er talin ein af bestu gönguferðum í Evrópu og trúlega á stórkostlegt útsýnið á Mt. Blanc og nágranna tindana sinn þátt í því. 

  Veðrátta: Sumarhitastigið á Mt. Blanc svæðinu er jafnan á milli 15° til 24°C, kvöldhitinn fellur þó oft niðurundir frostmark. Í Ölpunum, rétt eins og hér heima má búast við snöggum breytingum í veðráttu. Ekki er óalgengt að fólk upplifi það að ganga í sól og hita sem breytist fyrirvaralaust í göngu í rigninug eða jafnvel slyddu. Því er nauðsynlegt að búa sig líkt og fyrir íslenskar aðstæður og gleðjast þegar sólin skín og ekki þarf að nota vetrarklæðin.

  Matur og Drykkur: Allur matur er innifalinn í ferðinni fyrir utan kvöldverð og hádegisverð í Chamonix fyrstu 2 dagana.  Athugið að nauðsynlegt er að kaupa drykkjarvatn í skálunum því við mælum ekki með því að drekka vatnið beint úr fjallalækjunum. Þá má ekki gleyma því að vökvaþörfin er alltaf mikil í gönguferðum og eykst að mun þegar ferðast er í meiri hæð en vanalegt er. Við mælum með því að drekka minnst 2 lítra á dag á meðan á göngu stendur og auðvitað drekka meiri vökva í skálunum bæði kvölds og morgna.

  Skálar: Aðbúnaður í skálunum sem við gistum í er misjafn, sumir eru svipaðir skálum á hálendi Íslands með útikamri og engu rennandi vatni en aðrir líkjast meira gistiheimilum með sturtum, rafmagni og öðrum nauðsynlegum þægindum. Í öllum skálum fá gestir skálaskó og því er óþarfi að bera inniskó með sér. Í skálunum er einnig að finna eitthvert lesefni (reyndar mest á frönsku) og spil til að stytta sér stundir þegar slakað er á eftir erfiðan dag.

  Svefnbúnaður: Óþarfi er að bera svefnpoka með sér þar sem þykk og góð teppi eru til staðar í skálunum. Samt er mælt með að taka með sér lakapoka upp á þægindi að gera.

  Landakort: Hægt er að kaupa landakort í fjölda verslanna í Chamonix. Það eru Série Verte n° 53 Grenoble Mt-Blanc, TOP 25 n° 3630 OT Chamonix og n° 3531 ET St-Gervais

  Þjórfé og ferðapeningar: Debetkort og kreditkort eru nothæf á langflestum stöðum í Ölpunum, líka í fjallaskálunum. Ekki er venja eð veita þjórfé í fjallaskálum í Evrópu en þegar það er gert þá er það oftast gert til þess að jafna upphæðina

  Farangur: Nauðsynlegt er að merkja allar töskur vel og kanna eftir öll tengiflug hvort töskur séu enn á réttri leið (Transfer-desk flugvalla geta hjálpað við það). Sá farangur sem ekki er tekinn með í ferðina verður geymdur í Chamonix þar sem hann mun bíða okkar.

  Hertar reglur varðandi handfarangur: Gott er að les bækling Flugmálastjórnar um hertar reglur varðandi handfarangur! Upplýsingar er að finna hér.

  Símasamband: GSM samband er víðast hvar í Ölpunum

   

   

 • Útbúnaðarlisti

  Skór og fatnaður 

  • Mjúkbotna gönguskór, mega vera lágir
  • Sandalar eða léttir strigaskór
  • 1 - 2 léttar göngubuxur
  • Stuttbuxur
  • Síðar nærbuxur og 1-2 nærbolir úr ull eða góðu gerviefni
  • 2-3 bómullar bolir
  • 1-2 þunnar flís peysur
  • Nærbuxur
  • Hlýir sokkar (2 pör) og þunnir innri sokka fyrir þá sem vilja
  • Utanyfirjakki – góð skel (t.d. goretex) með hettu
  • Utanyfirbuxur - vatnsheldar (t.d. goretex)
  • Lítil eða "milliþykk" dúnúlpa eða gerviefna/primaloft jakki
  • Hlý húfa, sólhattur og buff
  • Fingravettlingar (t.d. flís) og "lúffur" eða belgvettlingar
  • Þægilegur ferðafatnaður

   

  Annar búnaður

  • 30 - 40 L dagpoki
  • læsanleg taska/tuðra fyrir annan farangur
  • Lás á tösku
  • Göngustafir (Valkvætt)
  • Vatnsflaska
  • Hitabrúsi (Valkvætt)
  • Vasahnífur (EKKI pakka honum í handfarangur)
  • Ferðahandklæði                          
  • Sólgleraugu
  • Ennisljós og rafhlöður
  • Skyndihjálparpoki: Plástrar, blöðruplástrar og sjúkrateip, lyf: ráðfærið ykkur við heimilislækni varðandi helstu lyf sem eru parasetamol og magnil (verkjastillandi) ibuprofen (bólgueyðandi og verkjastillandi), Cyproxin (sýklalyf við magasýkingu) og Immodium (hægðastoppandi)  önnur lyf eftir þörfum. Acidophilus (Gerlatöflur sem styrkja þarmaflóruna og auka mótstöðu)
  • Sótthreinsandi handspritt
  • Tannbursti, tannkrem
  • Sólarvörn (30+) og varasalvi (með sólarvörn)            
  • Eyrnartappar
  • Klósettpappír
  • Myndavél, minniskort, auka rafhlöður og hleðslutæki
  • Ipod, með tónlist og jafnvel hljóðbókum
  • Góð bók
  • Ferðaskjöl: flugmiði, vegabréf,peningur fyrir aukakostnaði, drykkjum, minjagripum og þjórfé
 • Brottfarar dagsetningar
  Dagsetning Ferða Framboð  
  16.06 - 24.06 2018 Í boði Velja

Veldu fjölda farþega og brottfarar dagsetningu.