Fjölskylduferð til Marokkó - IMG1130

Erfiðleikastig:

AUÐVELT

ERFITT

Verð frá:  

Fullorðinn: 115000

 • JAN
 • FEB
 • MAR
 • APR
 • MAY
 • JUN
 • JUL
 • AUG
 • SEP
 • OCT
 • NOV
 • DEC

Brottfarir: Hver brottför sniðin að þörfum farþega

Lengd: 8 dagar

Athugið: Verð miðast við lágmark 4 þátttakendur

 • Lýsing ferðar

  Ævintýri í landi Aladíns - með fjölskyldunni á ferð í Marokkó

  Marokkó er kjörinn áfangastaður til þess að fara með fjölskylduna á vit ævintýra þar sem allir finna eitthvað við sitt hæfi. Þessi ferð liggur upp að rótum Atlasfjallanna þar sem við kynnumst menningu Berbanna sem þar búa og lærum að baka brauð. Svo höldum við niður að strönd Atlantshafsins þar sem við njótum lífsins í borginni Essaouira, lærum að sörfa og förum í gönguferð með ferfætlingum sem gjarnan eru kallaðir skip eyðimerkurinnar. Í lokin kynnumst við ritlist heimamanna og öngstrætum borgarinnar Marrakech. Þessi ferð er kjörin fyrir þá sem vilja skapa góðar minningar með sínum nánustu

  Innifalið í verði:

  • Enskumælandi staðarleiðsögumaður
  • Öll gisting eins og fram kemur í leiðarlýsingu
  • 5 nætur á hóteli með sundlaug í Marrakech og Essaouira
  • 2 á gistiheimili í Ait Souka
  • Fullt fæði frá degi 2 að morgunverði á degi 8
  • Allur akstur eins og fram kemur í leiðarlýsingu
  • Öll afþreying sem fram kemur í leiðarlýsingu

  Ekki innifalið í verði:

  • Flug til og frá Marrakech
  • Ferða- slysa- eða farangurstrygging
  • Persónulegur búnaður eins og fram kemur á búnaðarlista
  • Þjórfé, drykkir og persónuleg eyðsla

 • Dagskrá ferðar

  Dagur 1: Koma til Marrakech í Marokkó
  Við komuna til Marrakech tekur staðarleiðsögumaður á móti ferðalöngum og ekur þeim á þægilega staðsett hótel í þessari framandi borg. Gisting  í tveggja manna herbergjum á hóteli með sundlaug.

  Dagur 2: Akstur að Atlasfjöllunum, matargerð og stutt ganga í Ait Souka (2000 m)
  Eftir morgunverð er sest upp í bíl og ekið í uþb 2 klukkustundir að Atlasfjöllunum. Í þorpinu Asni yfirgefum við malbikið og við tekur malarvegur upp í fjöllin. Við ökum um Mizan dalinn og sjáum fyrstu Berba þorpin þar sem húsagerð er allt öðruvísi en það sem við eigum að venjast en í stað steypu er leir helsta byggingarefnið. Árið 1995 komu mikil aurflóð niður þennan fallega dal sem enn má sjá merki um. Þorpið Imlil er síðasta þorpið í dalnum og þar endar vegurinn. Við leggjum því land undir fót og göngum í rúmlega hálftíma upp í litla þorpið Ait Souka þar sem við ætlum að gista. Á leiðinni getum við virt fyrir okkur gamla virkið, sem á máli innfæddra nefnist Kasbah, sem stendur ofan við Imlil og var breytt í tíbeskt hof árið 1997 þegar Hollywood kvikmyndin Kundun var í vinnslu á svæðinu.
  Við komuna til Ait Souka förum við fyrst á gistihúsið okkar þar sem við munum gista næstu 2 næturnar. Af þaksvölunum er frábært útsýni til fjallatindanna og þaðan má sjá hæsta tind Norður Afríku Toubkal. Við snæðum hádegisverð og svo hefst fyrsta kennslustundin þar sem við spreytum okkur á því að baka marokkóskt brauð. Við byrjum á því að búa til deigið sem þarf svo að lyfta sér í uþb 2 klukkustundir áður en hægt er að baka það. Upplagt er að fara í stuttan göngutúr og skoða okkur betur um í þorpinu og á svæðinu ofan þess á meðan deigið lyftir sér. Við bökum svo brauðið þegar við komum tilbaka með konunum í eldhúsinu. Á berba máli heitir brauð khobz og er yfirleitt kringlótt og flatt með góðri skorpu. Í sveitunum eiga flestar fjölskyldur lítinn viðarofn til þess að baka brauðið sitt í en í borgunum fara margir með deigið sitt út í bæ og láta baka það í ofnum sem víða er að finna. Nýbakað brauðið bragðast svo einstaklega vel sem forréttur eða hluti af kvöldverðinum. Morgunverður, hádegisverður og kvöldverður. 2 – 3 klst ganga

  Dagur 3: Ævintýri á gönguför – múlasnar, virki og baðhús
  Bænakall heimafólks kann að vekja okkur fyrir birtingu en við þurfum ekki að fara á fætur strax heldur getum dormað þar til sólin kemur upp. Ef veður er gott má snæða morgunverðinn á þaksvölunum áður en við leggjum af stað í göngu dagsins. Við hittum múlasnana og hirða þeirra  og börnin geta annað hvort setið á múlasnabaki þar sem stígurinn er öruggur eða gengið samhliða þeim. Það eru ótal möguleikar í boði fyrir göngu dagsins og veðrið mun að mestu stjórna því hvert við förum. Einn valkostur er að ganga í gegnum skóglendi til þorpsins Aremd og svo áfram meðfram læknum sem liðast niður frá Sidi Chamharoun. Við snæðum hádegisverð á skuggsælum stað og getum svo stoppað í Toubkal virkinu og fengið okkur svaladrykk á heimleiðinni. Aðgangseyririnn að virkinu er 50 dirham og er drykkur innifalinn í verðinu. Ef sólir er farin að segja til sín og við orðin pínu þreytt er virkið frábær staður til þess að kasta mæðinni á skuggsælum stað þar sem hægt er að njóta útsýnisins yfir svæðið.
  Við komuna í Ait Souka bíður næsta ævintýri okkar – bað að hætti heimafólks – Hammam. Hammam er mikilvægur hluti af marokkóskri menningu auk þess að vera staður þar sem fólk kemur til þess að baða sig er það líka staðurinn til þess að hlera hvað er að gerast í þorpinu eða einfaldlega hitta vini sína, ekki ólíkt því sem gerist í heitu pottunum okkar heima á Íslandi. Við komum hrein og strokin heim á gistihúsið í kvöldverðinn. Morgunverður, hádegisverður og kvöldverður. 4 – 5 klst ganga

  Dagur 4: Akstur til Essaouira
  Eftir morgunverð röltum við niður til þorpsins Imlil þar sem við setjumst upp í bíl og leggjum af stað niður að ströndinni og Atlantshafinu. Leiðin liggur í gegnum þorp og bæi og við stoppum og snæðum hádegisverð í einum þeirra. Við getum líka heimsótt Arganolíu fyrirtæki þar sem ýmsar vörur eru unnar úr Argan hnetum, sem vaxa í Marokkó og eru vörur úr þeim eftirsóttar víða um heim. Við komum til borgarinnar Essaouira og förum strax á hótelið þar sem við dveljum næstu dagana. Hótelið er aðeins 15 mínútna gang frá borgarmiðjunni og steinsnar frá ströndinni.
  Essaouira er heillandi borg með langa sögu og arkítektúr úr smiðju Berba, Frakka og Portúgala. Fiskveiðar eru undirstaða atvinnulífsins í borginni þó svo að alls kyns handverk og listiðnaður sæki á. Það er helst ljósið sem og óviðjafnanleg staðsetning borgarinnar sem dregur listafólk á staðinn. Ferðaiðnaður er líka í örum vexti og í borginni er að finna góð veitingahús og hótel. Flottustu hótelin er að finna í gömlum húsum frá 19. öldinni sem láta kannski lítið yfir sér utan frá séð en hafa að geyma stóra garða og svalir og eru að innan ævintýri líkust. Um leið og við höfum komið okkur fyrir á hótelinu getum við farið niður á strönd eða skoðað okkur um á aðaltorginu, jafnvel sest niður á einhverju kaffihúsinu og virt fyrir okkur mannlífið. Af torginu sér yfir höfnina og alla litlu bátana og sölubásana sem bjóða ferskasta fisk dagsins. Auðvitað er líka hægt að slappa af við sundlaugarbakka hótelsins. Gisting í tveggjamanna herbergjum. Morgunverður, hádegisverður og kvöldverður.

  Dagur 5: Sörfað í öldum Atlantshafsins
  Eftir morgunverðinn hefst ævintýri dagsins þegar við hittum sörf kennara sem afhendir okkur allt það sem við þurfum fyrir þetta spennandi ævintýri, blautbúninga, flotholt og sörfbretti. Við göngum niður á ströndina þar sem við fáum kennslu og leiðbeiningar um hvað sörf er og hvernig best er að takast á við þetta sport áður en við tökumst á við öldurnar. Aldurstakmark er 8 ár og allir þurfa að vera syndir. Eftir 2 stunda leik í öldum og á strönd eru flestir orðnir svangir og tilbúnir í hádegisverð. Eftirmiðdagurinn er frjáls og val um að halda til á ströndinni, skreppa inn í bæ á markaðinn eða einfaldlega slappa af á hótelinu. Essaouira býður upp á ótal möguleika bæði er hægt að villast í medínunni, elsta huta borgarinnar, þar sem er að finna ótal litlar götur með litlum búðum sem selja krydd og matvæli af ýmsum toga auk listmuna og handverks. Einnig er hægt að rölta eftir stíg meðfram strandlengjunni eða á ströndinni sjálfri, jafnvel leigja sér drómedara þar. Við enda strandarinnar eru rústir gamals virkis sem hafaldan hefur leikið grátt. Morgunverður, hádegisverður og kvöldverður

  Dagur 6: Skip eyðimerkurinnar og leikir á ströndinni
  Eftir morgunverð er stutt ferð niður með ströndinni til Sidi Kaouki þar sem við hefjum ævintýri dagsins. Í Sidi Kaouki hittum við drómedarana og hirða þeirra og hefjum gönguna suðrábóginn. Ef við höfum heppnina með okkur, gætum við séð fólk að sörfa í öldunum. Drómedararnir eru allir með hnakk og allir fá að prófa hvernig það er að sitja á baki þessara stóru dýra sem kölluð hafa verið skip eyðimerkurinnar, einkum fyrir það hversu þolgóð og harðgerð þau eru á erfiðum ferðalögum um sandöldur eyðimerkurinnar þar sem ekki er deigan dropa af vatni að finna, oft svo dögum skiptir.
  Eftir um það bil eins og hálfs tíma göngu komum við að höfða þar sem við breytum um stefnu og höldum til austurs í áttina frá hafi í gegnum kjarrlendi þar til við komum að litlu gistihúsi þar sem við setjumst niður og snæðum hádegisverð. Eftir hádegisverðinn er haldið til baka til Sidi Kaouki eftir ströndinni í rólegheitum og hægt að bregða á leik með frisbí eða bolta á leiðinni. Í Sidi Kaouki er að finna litlar búðir og kaffihús þar sem hægt er að fá sér svaladrykk. Við kveðjum drómedarana og höldum heim á hótel og getum nýtt það sem eftir er dags annað hvort á ströndinni eða við sundlaugina. Morgunverður, hádegisverður og kvöldverður. 4 – 5 klst ganga

  Dagur 7: Akstur til Marrakech, leturgerð og gamli bærinn
  Eftir morgunverð og jafnvel stuttan sundsprett á hótelinu kveðjum við þennan dásamlega stað og ökum til Marrakech. Við komuna þangað förum við á hótel og snæðum hádegisverð og getum svo notið lífsins í fallegum hótelgarðinum og sundlauginni þar. Seinnipartinn göngum við inn í gamla bæinn og fáum þar leiðsögn í leturgerð enda er arabískan talsvert frábrugðin því letri og stafrófi sem við eigum að venjast. Við fræðumst um sögu arabískrar leturgerðar og fáum að spreyta okkur á því að skrifa með sérstökum pennum. Síðast en ekki síst mun kennarinn skrifa nöfnin okkar með þessari framandi leturgerð á þar til gerð blöð sem við fáum svo  með okkur. Eftir þessa skemmtilegu kynningu á leturgerð heimafólks höfum við tíma til þess að skoða okkur betur um í gamla bænum þar sem göturnar eru þröngar en iða af lífi. Við snæðum svo kvöldverð á veitingahúsi með leiðsögumanninum okkar og þar sem þetta er síðasta kvöldið er veisla í vændum. Gisting á hóteli í tveggja manna herbergi. Morgunverður, hádegisverður og kvöldverður.

  Dagur 8: Haldið heim
  Eftir morunverð er okkur ekið á flugvöllinn og ferðin heim hefst. Morgunverður

 • Almennar Upplýsingar

  Almennt: Marokkó er á norðvestur horni Afríku, á strönd að Miðjarðarhafi og Atlandshafi. Marokkó er ríflega 7 sinnum stærra en Ísland að flatarmáli og þar búa rúmlega 31 milljón manns. Þjóðin samanstendur af aröbum og berbum og auk arabísku eru talaðar nokkrar berba mállýskur. Franska er verslunarmálið á svæðinu sem ekki kemur á óvart þegar horft er til þess að Marokkó var frönsk nýlenda þar til árið 1956. Enska er þó tungumál sem sækir á og einhver hluti landsmanna talar hana ágætlega. Marokkó er að mörgu leyti land aðstæðna, með annan fótinn í nútímanum en hinn aftur í öldum. Sláandi munur er t.d. á mannlífi í borg og sveit. Helmingur landsmanna fæst við landbúnað en þjónusta og iðnaður sækja á. Marokkó er á GMT tíma allt árið rétt eins og Ísland. 

  Menningin er margslungin og dregur keim af þeim ólíku straumum sem sett hafa mark sitt á hana í aldanna rás. Berbar eru upprunalegir íbúar svæðisins en búsetu þeirra í N. Afríku má rekja allt aftur til nýsteinaldar. Í dag eru meirihluti íbúa Marokkó af berbaættum en arabar sem lögðu landið undir sig á 7. öld hafa óneitanlega markað sín menningarlegu spor. Í áranna rás hafa svo vestræn áhrif síast inn og Marokkóbúar hafa verið óhræddir við að blanda þessu öllu saman. Í dag er ekki ólíklegt að sjá karlmenn skarta hefðbundnum jellabia kuflum utan yfir vestræn jakkaföt eða hafnabolta húfu tróna á toppi túrbans. Þrátt fyrir þessi augljósu vestrænu áhrif ber að hafa í huga að Marokkóbúar líta á fótleggi og axlir sem prívat parta hvers og eins, sem bæði körlum og konum ber að hylja. Í augum heimafólks eru hlírabolir og stuttbuxur nærfatnaður og því er trúlega eðlilegt að klæðast efnismeiri fatnaði, t.d. léttum skyrtum og hálfsíðum buxum/pilsum.

  Flestir Marokkóbúar eru múslimar og ber landið allt og menningin keim af því. Margar fallegar moskur eiga eftir að verða á vegi okkar og við getum lagt eyru við bænaköllunum sem frá þeim berast fimm sinnum á sólarhring. Ólíkt mörgum stöðum er ferðafólki ekki veittur aðgangur að moskum í Marokkó svo við verðum að láta okkur nægja að hlusta á bænaköllin og dást að byggingunum að utan. Í augum heimafólks eru moskurnar helgir staðir sem eingöngu múslimar hafa aðgang að og sjálfsagt að virða það.

  Marokkóbúar eru þó  hófsamir enda hefur menningin í aldanna rás verið háð samskiptum og samneyti ólíkra menningarhópa. Það kann að koma einhverjum spánskt fyrir sjónir að fram að stofnun Ísraelsríkis 1948 bjuggu um hálf miljón gyðinga í Marokkó sem var fjölmennasta gyðingabyggð í  N. Afríku. Í dag eru uþb 7000 gyðingar búsettir í landinu.

  Líklegt er að margir hafi með sér myndavél enda aðlilegt að festa það sem manni kemur spánskt fyrir sjónir á filmu eða greipa í bæt á minniskubbi. Við skulum þó hafa í huga að það er sjálfsögð kurteisi að óska eftir leyfi ef okkur langar að festa heimafólk á filmuna, áður en við smellum af. Annars kann saklaus myndataka okkar að virðast móðgandi og getur valdið leiðindum. Sjálfsagt er að semja sig að siðum heimafólks og bera virðingu fyrir þeim gildum sem í heiðri eru höfð. Almennt séð eru Marokkóbúar höfðingjar heim að sækja og gestrisni þeirra viðbrugðið. Kveðja þeirra As Salamu Alaykum, sem þýðir friður sé með yður, ætti að vera farin að hljóma kunnuglega í lok ferðar. Gott er þá að geta svarað í sömu mynt með kveðjunni Alaykum As Salam! 

  Veðrátta: Loftslag í Marokkó er þurrt mestan hluta ársins, en vænta má regns frá nóvember fram í mars. Vert er að hafa í huga að loftslag og veðrátta er breytilegt eftir því hvar í landinum fólk er statt. Hitastigið er talsvert hærra sunnan til í landinu og uppi í fjalllendinu er það að sama skapi lægra, jafnvel undir núllinu. Meðalhiti í borginni Marrakech í október er á bilinu 14° - 28°C. 

  Heilsa og hreinlæti: Hreinlæti heimamanna í ferðaþjónustu er mjög gott og líklega er óhætt að borða allt sem boðið er upp á, þar með talið ávextir og grænmeti. Ekki er þó ráðlegt að skipta við götusölufólk sem kann að hafa ýmislegt lostæti í boði við fyrstu sýn. Nauðsynlegt er að hugsa vel um vökvabúskap líkamans í fjallagöngum og drekka minnst 2 l á meðan á göngu stendur. Ekki er ráðlegt að drekka úr fjallalækjum hversu freistandi sem það kann að virðast heldur drekka soðið vatn, eða setja þartilgerðar vatnshreinsitöflur í drykkjarvatnið. Varast ber að hafa með sér fljótandi snyrtivörur sem eiga til að leka í hæð vegna minni þrýstings. Gott ráð er að nota blautþurkkur (baby-wipes á ensku) þar sem þær springa ekki í hæð. 

  Bólusetningar:Hefðbundanr barnasprautur þurfa að vera í lagi, mænusótt, stífkrampi og barnaveiki. Auk þess er nauðsynlegt að hafa taugaveiki og lifrarbólgu A og jafnvel lifrarbólgu B. Ráðfærið ykkur við heimilislækni eða Heilsugæsluna sem hefur ferðamannabólusetningar á sinni könnu. (5851300, símatími 9 – 10 og 15 – 16 daglega, nema um helgar) 

  Matur: Allur matur er innifalinn í ferðinni. Matarmenning heimafólks er fjölbreytt og margir ljúffengir réttir í boði sem vert er að prófa. Ráðlegt er að hafa orkunasl og sætmeti með sér að heiman. 

  Matarmenningin í Marokkó er ólíkt mörgum löndum í Afríku, með eindæmum skemmtileg og fjölbreytt. Er nær að halda að heimafólk hafi tileinkað sér það besta úr þeim ólíku hefðum sem til grundvallar liggja. Útkoman eru ljúffengir réttir þar sem krydd og ferskleiki hráefnisins leika við bragðlaukana. Grænmetisætur þurfa ekki að hafa áhyggjur því kjöt er síður en svo meginuppistaðan í matargerð heimafólks.

  Tajine og kúskús eru trúlega kunnustu þjóðarréttirnir. Tajine er lambakjöt og grænmeti eldað hægt í þartilgerðum tajine-potti, kryddað á sína vísu og kannski ekki svo ósvipað íslensku kjötsúpunni þó kryddið geri bragðið framandi.  Kúskús er aftur á móti meðlæti, ómissandi hvort heldur með kjöt eða grænmetisréttum. Kúskúsið er upprunnið í N. Afríku og unnið úr durum hveiti. Matreiðsla þess er tímafrek enda er það oftast gufusoðið og þá jafnvel tvisvar eða þrisvar. Ekki er svo úr vegi að smakka á Harira, hinni matarmiklu grænmetissúpu þar sem linsubaunir, kjúklingabaunir, laukur, tómatar og ferskar kryddjurtir sameinast í himnesku bragði.

  Eins og flestir vita er neysla áfengis ekki leyfð skv trúarritinu Kóraninum. Hins vegar er því svo farið að Marokkóbúar framleiða  bæði bjór og vín og hæglega má nálgast hvoru tveggja á helstu hótelum og í tilteknum verslunum í stærri borgum. Þjóðardrykkur Marokkóbúanna er óneitanlega mintuteið sem er dísætt og fátt bragðast betur þegar komið er í tjaldstað eftir dagleið á fjöllum. 

  Þjórfé og ferðapeningar: Gjaldmiðillinn í Marokkó er dirham. Gengi dirhams gagnvart bandaríkjadal er nokkuð stöðugt, fyrir US$ 1 fást 8,365 dirham. 1 dirham jafngildir u.þ.b. 8 íslenskum krónum. Flest betri hótel taka við kreditkortum og helstu bankar eru með hraðbanka á sínum snærum. 

  Vegabréfsáritanir: Nauðsynlegt er að vera með gilt vegabréf með sér á ferð um Marokkó en ekki er krafist vegabréfsáritunar. 

  Farangur: Merkja skal allar töskur vel og kanna eftir öll tengiflug hvort töskur séu enn á réttri leið (Transfer-desk flugvalla geta hjálpað við það). Gott er að kynna sér hertar reglur varðandi handfarangur. Upplýsingar þaraðlútandi má fá hér.

  Símasamband: Gsm símasamband er víðast hvar hægt að reiða sig á hvort heldur í sveit eða borg. 

  Internet: Í stærri borgum er internet víða aðgengilegt gegn vægu gjaldi.

   

  Almennur gátlisti fyrir ferðalög erlendis

  Aðstandendur
  Tilkynna aðstandendum um ferðaáætlun og hvernig hægt sé að ná sambandi í neyðartilvikum

  Áður en lagt af stað
  Bólusetning tímanlega, vegna smitsjúkdóma
  Taka lyf með, sem fólk tekur að staðaldri
  Spyrja lækni hvort þörf sé á breyttri lyfjagjöf, vegna breyttra aðstæðna

  Hafa meðferðis
  Lyfseðil, nöfn og skammtastærðir á lyfjum, til vara, ef lyf glatast
  Minniháttar sáraumbúðir
  Klórtöflur ef ekki er hreint og ómengað vatn til staðar (fást í apótekum)
  Sykursaltlausn til notkunar ef svæsinn niðurgangur (fæst í apótekum)
  Medic-alert-nisti ef fólk hefur alvarlegan sjúkdóm eða ofnæmi
  Taka með í handfarangri lífsnauðsynleg lyf, ferðatöskur geta týnst
  Evrópska sjúkratryggingakortið. Það gildír innan evrópska efnahagssvæðisins. Nánari
  upplýsingar á www.tr.is

  Heilsufar
  Vera í almennt góðu líkamlegu og andlegu formi eins og kostur er
  Passa að drekka nóg vatn í miklum hita
  Taka lyf á réttum tíma
  Forðast óhóflega áfengisneyslu
  Forðast óábyrgt kynlíf - öryggið á oddinn!

  Húðin
  Stunda sólböð af hófsemi og nota sólarvörn
  Nota varnir gegn skordýra- og mýbiti

Vinsamlegast hafið samband við okkur fyrir frekari upplýsingar um brottfarir í boði.