Útbúnaðarlisti fyrir styttri bakpokaferðir

Ferðafatnaður (til að klæðast í upphafi göngu):
Nærskyrta úr ullar eða flís efni (t.d. Stillongs),þunn peysa eða skyrta úr ull eða flís. Lopapeysa eða þykk flíspeysa. Ullarsokkar. Buxur þurfa að vera sterkar og úr efni sem þornar fljótt. Ýmislegt kemur til greina, t.d. hnébuxur úr teygjanlegu efni, flísbuxur, buxur úr ullarefni eða pólyester.

Í bakpokann:
ullarnærskyrta
síðar nærbuxur
aukapeysa
3 pör af ullarsokkum(ullarsokkar með frotté fara t.d. vel með fætur). Forðast ber að klæðast sportsokkum úr bómull fyrir innan ullarsokkana.
góðir íslenskir ullarvettlingar, eitt eða tvö pör eru nauðsynlegir og utanyfirvettlingar úr vatnsheldu efni eru ekki til skaða.
ullarhúfa eða lambhúshetta og e.t.v. ennisband.
Jakki eða anorak úr vatnsheldu efni og með góðri hettu , annað hvort Goretex eða sambærilegt, eða gúmmígalli (t.d. fást þeir mjög léttir hjá 66°N).
Utanyfirbuxur úr sama efni. Ath: ef axlabönd fylgja ekki með buxunum er oftast mjög gott að bæta þeim við sjálfur.
Gönguskór, mjúksóla úr leðri eða rúskinni og næloni. Hægt er að fá leðurskóna með eða án Goretex (í sumum tilfellum Sympatex) og í öllu falli er hægt að vatnsverja þá töluvert með leðurfeiti. Ef um er að ræða skó úr rúskinni og næloni þá er betra að þeir séu með Goretex eða sambærilegu en þó ekki nauðsynlegt. Það sem er mikilvægast er að skórnir passi vel og séu þægilegir.
Legghlífar

Annar búnaður:
12" Bakpoki. Til eru margar góðar gerðir af bakpokum, flestir grindarlausir. Gott er að miða við 50 til 60 lítra poka fyrir kvenmann og 60 til 70 lítra fyrir karlmann.
Svefnpoki með dún eða fíberfyllingu. Nauðsynlegt er að pokinn sé léttur og hlýr og því mælum við helst með gæsadún eða "Quallofill" svefnpokum. Hafa ber í huga að tölur um kuldaþol svefnpoka eru oftast ýktar og því nauðsynlegt að pokinn sé gefinn upp fyrir a.m.k. -8°C.
Einangrunardýna úr frauði eða sjálfuppblásin (ekki svampdýna eða vindsæng).
Gamlir strigaskór eða sandalar til að vaða ár.
Göngustafir (ef vill)

Og að lokum ýmislegt smálegt sem gott er að hafa með:
tannbursti
dálítið tannkrem (má setja í filmuhylki)
2-4 metrar salernispappír
mjög lítið handklæði
sólgleraugu og sólvarnarkrem
e.t.v. myndavél og filmur
vasahnífur
höfuð- eða vasaljós (óþarfi í júní-júlí)
u.þ.b. 0,5 lítra plastflaska undir vatn
lítil, létt og vatnsheld bókmennt