Útbúnaðarlisti fyrir há fjöll og jökla (s.s. Hvannadalshnúk)

Dæmi um fjöll í þessum flokki eru Hvannadalshnúkur – Hrútsfjallstindar – Þverártindsegg og Miðfellstindur
 
Bakpoki 30-45L
Vatns og vindheldur öndunarfatnaður, buxur og jakki
Góðir gönguskór sem styðja vel við ökla (ath. hægt að leigja af ÍFLM)
Legghlífar
Síðerma bolur úr ull eða gerviefnum
Göngubuxur eða fleece buxur
Ullarsokkar / göngusokkar
Sólgleraugu og sólvörn (20 eða meira)
Hlý peysa (ull eða fleece)
Auka peysa til að nota í pásum og á köldum dögum
Húfa og vettlingar
Nesti (2-6 samlokur og súkkulaði og/eða annað orkunasl)
Vatn (allt að 3L, leitið ráða hjá leiðsögumanni)
Myndavél
Stillanlegir göngustafir
 
Snemma á vorin (apríl, maí) er nauðsynlegt að vera í hlýrri fötum og ekki úr vegi að hafa þá einnig: 

Skíðagleraugu
Vindheldar lúffur/vettlinga 
Lambhúshetta

Fatnaður:
Að fara á Hnúkinn tekur milli 10 og 15 tíma að jafnaði. Búast má við hitastigi á bilinu –5°C og upp í 20°C á hvaða tíma sem er. Besta leiðin til að vera búinn undir þennan mikla hitamun er að klæða sig í lögum. Þannig er hægt að fara úr í miklum hita eða auka við fatnað eftir því sem ofar dregur og kólnar. Það er mjög mikilvægt að klæðast fatnaði næst húðinni sem ekki dregur í sig raka. Ull og ýmis gerviefni eru mjög góð. Bómull er alger bannvara á fjöllum! Útivistarverslanir hafa mikið framboð af góðum innanundirfatnaði og geta gefið góð ráð um val á honum.

Matur og drykkur:
Á meðan á fjallgöngunni stendur er stoppað nokkrum sinnum í lengri og skemmri tíma til að nærast og drekka. Mjög gott er að hafa nesti sem samanstendur af sælgæti, t.d. súkkulaði, sem borða má í stuttum pásum og samlokum sem gefa langtíma orku og borða má í löngum pásum.
Það er sjaldgjæft að göngumenn nái ekki toppnum vegna þreytu. Þegar slíkt kemur fyrir er það venjulega vegna vöðvakrampa. Vöðvakrampar verða til vegna samblands áreynslu, vökvaskorts og steinefnaskorts. Besta leiðin til að koma í veg fyrir krampa er að drekka mikið af vökva. Hægt er að blanda ýmis konar orkudrykkjum út í vatn til að bæta upp steinefna- og orkuskort.
Best er að velja orkudrykki sem hafa mikið af steinefnum en ekki eingöngu kolvetni. Styrkur blöndunnar ætti að vera um ½ af því sem framleiðandi mælir með.
Vatnið ætti að bera þannig að hægt sé að ná í það á göngu svo ekki þurfi alltaf að taka af sér bakpokann til að drekka. Góður kolvetnaríkur morgunmatur hjálpar til (múslí, brauð, bananar) og ekki er verra að drekka mikið áður en lagt er af stað. Kaffidrykkju ætti að stilla í hóf þar sem hún leiðir til frekara vökvataps. Það er um að gera að drekka, drekka, drekka og drekka svo meira!

Fyrir brottför

Eftir kl. 17:30 daginn fyrir uppgöngu þurfa allir þátttakendur eða forsvarsmenn hópa að hafa samband við leiðsögumenn í Skaftafelli í síma +354 8942959 og ákveða tímasetningu á kvöldfundi með leiðsögumanni. Kvöldið fyrir brottför hittast allir þátttakendur og leiðsögumaður þeirra við bjálkakofa Íslenskra Fjallaleiðsögumanna við hlið þjónustumiðstöðvarinnar í Skaftafelli. Þar er farið yfir búnað þátttakenda, sérhæfðum jöklabúnaði útdeilt, spurningum svarað og nákvæmur brottfarartími ákveðinn út frá veðurspá.

Jón Gauti fer hér yfir nauðsynlegan klæðnað og undirbúning fyrir ferð á Hvannadalshnjúk.