Mikilvægi vandaðs og góðs útbúnaðar verður seint ofmetið

Nauðsynlegt er að vera rétt búinn þegar ferðast er um hálendi Íslands. Í bakpokaferðum skiptir máli að hafa það sem þarf en einnig að pakka ekki of miklu og stilla þannig þyngd bakpokans í hóf.

Íslenskir Fjallaleiðsögumenn útvega allan sérhæfðan búnað í ferðum sínum, þar með talið; ísaxir, mannbrodda, línur, belti, ísskrúfur og þess háttar. Ekki má heldur gleyma ýmsum þeim öryggistækjum sem á þarf að halda í ferðum í óbyggðum svo sem sjúkragögnum, fjarskipta- og leiðsögutækjum ásamt öðru. Ef þú ætlar á eigin vegum en vantar útbúnað ættir þú að athuga búnaðarleigu Fjallaleiðsögumanna.

Fjallaleiðsögumenn gera miklar kröfur til alls ferðaútbúnaðar og er það ein meginástæða þess að við viljum helst sjá um og útvega slíkan búnað. Önnur veigamikil rök eru að því að búnaður hóps sé samstæður svo hægt sé að sameina íhluti og samnýta varahluti.

Æskilegt er að allur innri klæðnaður sé úr ullar- eða flís-efnum (flís=polyester) en alls ekki úr bómull (cotton). Ullar og flís-efni halda einangrunargildi sínu þótt þau blotni. Bómullarfatnaður (til dæmis gallabuxur og hefðbundnir nærbolir) eru ekki fjallafatnaður.

Skjólfatnaður verður að vera vatnsheldur og er þá um leið vindheldur. Góðir gönguskór með öklastuðningi eru nauðsynlegir en skyldu þó hvorki vera glænýjir né fengnir að láni, heldur gengnir til svo þeir hafi aðlagast fætinum. Allur farangur ætti að vera í vatnsheldum umbúðum, líka ofan í bakpokum.

Íslenskir Fjallaleiðsögumenn geta lánað vettlinga og húfur, litla dagsgöngubakpoka og jafnvel ýmislegt annað sem gæti vantað.
Hér fyrir neðan eru útbúnaðarlistar sem hæfa ólíkum ferðum Fjallaleiðsögumanna. Farðu eftir listanum sem hentar þinni ferð og þú hefur það sem þú þarft - hvorki of mikið né of lítið.

Dagsferð á jökul
Há fjöll og jöklar
Stuttar bakpokaferðir
Marokkó
Tour du Mont Blanc
Lengri Bakpokaferðir
Ísklifur
Elbrus
Merufjall og Kilimanjaro