ÍFLM Fjallaleiðsögumanna próf (NZMGA Alpine Trekking Guide)

Lýsing:
Fjallaleiðsögumanna prófið er 8 daga próf þar sem nemendur eru metnir í færni sinni sem leiðsögumenn í erfiðu fjallalandslagi með og án jökla. Prófið tekur til allra þátta fjallamennsku og gerir kröfu um lágmarks færni í klifri. Mikil áhersla er lögð á línuvinnu, hraða og öryggi sem og getu til að meta áhættu og lágmarka hana fyrir gesti.

Forkröfur:
Einungis þeir sem hafa jákvæða umsögn úr Fagnámskeiði í fjallaleiðsögn geta tekið Fjallaleiðsögumanna próf. Að auki verða nemendur að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Nemendur á lokaprófi eiga að vera færir um að klifra í leiðslu klettaleiðir að lágmarki 5.8 í sport-klifri (boltar; Hnappav. Ísl.).

  • Þeir þurfa að hafa klifrað að lágmarki 15 ísleiðir þar af 8 fjölspanna og þar af amk 3 þar sem sigið er niður úr leiðunum. Af þessum 15 eiga 8 að vera að lágmarki 4.gr.

  • Nemendur eiga einnig að hafa bætt við sig amk einni alpaleið eins og leiðum á einhverjum N-veggja Skarðsheiðar, S-hlíð Hrútfjallstinda austurveggjum Skarðatinda eða Þverártindseggjar eða klettaleiðum eins og Kerlingareldi. Sambærilegar leiðir erlendis eru einnig teknar gildar í öllum tilfellum.

Mat:
Nemendur eru metnir í öllum þáttum fjallamennsku, samskiptum við gesti, áhættustýringu, eigin hæfni, kunnáttu í björgun, staðar- og veðurþekkingu auk annarra þátta sem skipta máli í leiðsögn í fjalllendi.

Réttindi:
Fjallaleiðsögumanna próf er efsta stig þeirrar menntunar sem Íslenskir Fjallaleiðsögumenn bjóða upp á til þjálfunar leiðsögumanna sinna. Þar með er þetta efsta stig þeirrar menntunar sem boðið er uppá í fjallaleiðsögn á Íslandi.
Þeir sem ljúka prófinu fá titilinn Fjallaleiðsögumaður og hafa rétt til að vinna við alla fjallaleiðsögn og leiðangra sem eru í boði hjá Fjallaleiðsögumönnum.
ÍFLM Fjallaleiðsögumanna prófið telst ekki full klárað nema að viðkomandi hafi einnig klárað fagnámskeið í skyndihjálp og mati á snjóflóðahættu. Þar standa fremst meðal jafningja: Fyrstahjálp í óbyggðum og Canadian Avalanche Association. Önnur fagnámskeið af svipaðri lengd og gæðum eru einnig ásættanleg. T.d. European Avalanch School.

Kennsla:
Miðað er við 2 leiðbeinendur á hverja 8 þátttakendur. Hvert námskeið er leitt af Fulltrúa NZMGA en aðstoðarleiðbeinandi er að lágmarki Fjallaleiðsögumaður. Stefnt er að því að þetta námskeið sé haldið erlendis þar sem nemendur hafa tækifæri til að kynnast og vinna í fullkomnun aðstæðum. Fjallaleiðsögumannaprófið 2011 var haldið í Sviss.

Fyrir nánari upplýsingar og verð hafið sambandi við info@mountainguides.is