Craig Downing Rest Laugavegur Royalsl

Styrkveitingar úr umhverfissjóði Íslenskra Fjallaleiðsögumanna

Stjórn Umhverfissjóðs Íslenskra Fjallaleiðsögumanna ehf. hefur komist að eftirfarandi niðurstöðu um úthlutun úr sjóðnum fyrir árið 2016. Alls bárust 6 umsóknir þetta árið, allt mjög spennandi verkefni að okkar mati en að þessu sinni hljóta þrjú þeirra styrk úr sjóðnum. Upphæðin til úthlutunar er 1,5 milljón króna og þótti nefndinni fjármagninu best varið í verkefni þar sem styrktar upphæðin myndi nokkurn veginn duga til að ljúka fjármögnun verkefnanna á þessu ári.

Uppbygging göngustíga á Fjallabaki norðan Álftavatns.

Ein umsókn barst frá Skógrækt Ríkisins til uppbyggingar á gönguleiðinni um Laugaveginn, á svæðinu norðan Álftavatns, í samvinnu við sjálfboðaliðasamtökin. Fékk það verkefni hæsta styrkinn þar sem hluti sjóðsins er eyrnamerkt ur þessu svæði.

Verkefnið hlýtur 700.000 kr.

Nefndinni þótti erfitt að velja úr hinum fimm verkefnunum og var niðurstaðan á endanum sú að veita eftirfarandi tveim verkefnum styrk úr sjóðnum, Stikun gönguleiða á Búlandstind og Endurbygging fjallaskálans á Heljadalsheiði. Rökstuðningur við þessa ákvörðun er eftirfarandi:

Stikun gönguleiða á Búlandstind, umsækjandi Djúpavogshreppur.

Við teljum að stikun gönguleiðar á Búlandstind komi í veg fyrir að óskilgreindir slóðar myndist á fjallinu, sem væru mikil lýti á mjög fallegu fjalli auk þess sem stikun eykur öryggi ferðalanga á svæðinu. Íslenskir Fjallaleiðsögumenn eru með skipulagðar ferðir sem fara um svæðið og stikun þessarar leiðar gefur hópunum kost á því að  nýta merkta leið í ferðum á vegum fyrirtækisins.

Verkefnið hlýtur 400.000 kr.

Endurbygging á Fjallaskála á Heljadalsheiði, Ferðafélags Svarfdælinga.

Nefndinni finnst þetta einnig mjög spennandi verkefni sem gæti í framtíðinni opnað nýja möguleika í göngferðum og skíðaferðum á svæðinu. Einnig er öryggissjónarmið haft að leiðarljósi, þar sem ferðafólk getur leitað skjóls í skálanum í vondum veðrum.

Verkefnið hlýtur 400.000 kr.