Gönguskíðagengið - HRH494

Útivera og holl hreyfing í frábærum félagsskap!

Erfiðleikastig:

AUÐVELT

ERFITT

Verð frá:  

Fullorðinn: 36900

 • Lýsing ferðar

  Gönguskíðagengið

  Gönguskíðagengið er hugsað fyrir útivistarfólk sem hefur áhuga á því að stunda reglubundna hreyfingu og ferðast á gönguskíðum. Gönguskíðagengið er miðað við ferðaskíði með stálköntum. Kvöldferðir og æfingar geta verið í braut en ef veður og aðstæður leyfa þá verða fetaðar ótroðnar slóðir. Tímabil Gönguskíðagengisins er frá byrjun janúar og til byrjun Júní (fer eftir vetraraðstæðum). 

  Boðið verður upp á vikulegar kvöldgönguskíðaæfingar kl 18:00 á þriðjudagskvöldum. Bjóði aðstæður ekki uppá gönguskíðaferðir sameinast hópurinn þrekæfingum og kvöldgöngum Fjallafólks kl 18:00 á þriðjudögum. Á mánudögum eru upplýsingar um þriðjudagsæfinguna send út til þeirra sem skráðir eru í hópinn og einnig kynnt á facebooksíðu hópsins.  

  Kvöldæfingarnar eru frábær útivist sem reynir vel á allan líkamann og er andleg jafnt sem líkamleg heilsubót.  Í byrjun vetrar tekur hópurinn nokkrar æfingar þar sem farið er yfir gönguskíðatæknina. Fyrir fólk sem ekki hefur æft ferðagönguskíði þá er þessar æfingar tilvaldar til þess að bæta tæknina en eru einnig nauðsynlegar þeim sem eru að feta sín fyrstu spor á þessum skemmtilega ferðamáta.

  Það er gott að hafa reynda umsjónarmenn þegar ferðir eru skipulagðar um hávetur eða þegar lengri ferðir eru áætlaðar um hálendið og jökla. Í lengri ferðunum reynir einnig á almenna ferðakunnáttu hópsins.  Mánaðarlega eru lengri og meira krefjandi gönguskíðaferðir og þegar dag fer að lengja er boðið uppá helgarferð og loks nokkra daga gönguskíðaferð síðla vetrar. 

  Úrvals fararstjórn

  Yfirumsjón með Gönguskíðagenginu hefur Einar Torfi Finnsson. Hann hefur áratuga reynslu af fjallamennsku og gönguskíðun og verður að teljast einn af reynslumeiri mönnum landsins á því sviði. Hann hefur m.a. farið fjölda gönguskíðaferða á hálendi Íslands svo sem yfir Sprengisand og Vatnajökul. Eins hefur hann gengið þrisvar yfir Grænlandsjökul og á Suðurpólinn. 

  Með Einari Torfa verður Helgi Egilsson. Helgi hefur unnið fyrir Íslenska Fjallaleiðsögumenn í mörg ár og hefur leiðsagt í hinum ýmsu ferðum. Helgi er menntaður hjúkrunarfræðingur og því gott að hafa hann með í ferð!

  Fríðindapakki Gönguskíðagengis

  Fyrir utan augljósan heilsufarslegan ávinning af reglulegum fjallgöngum standa þátttakendum í gönguhópum Fjallaleiðsögumanna margs konar fríðindi til boða:

  • Sértilboð til þátttakenda á útivistarfatnaði og búnaði frá Íslensku Ölpunum
  • Sérstök kynningar- og afsláttarkvöld
  • Afsláttur á námskeiðum Fjallaleiðsögumanna 
  • Jöklaganga í Skaftafelli eða á Sólheimajökli, boðsferð fyrir tvo.
  • 15.000 kr. Ferðaávísun sem gildir í allar staðfestar lengri ferðir Íslenskra Fjallaleiðsögumanna, nema sérferðir og skipulagðar ferðir Hreyfihópana.

  Skráning eða nánari upplýsingar: sendið póst á fyrirspurn@fjallaleidsogumenn.is 

 • Dagskrá ferðar

  Dagskrá 2018

  Dagskráin hefst þriðjudaginn 2. Jan kl 18.00

  Aukakvöldum verði bætt inn í desember ef nægur snjór er til staðar.

  Dagskráin getur tekið breytingum í vetur vegna veðurs og aðstæðna. Við áskiljum okkur rétt til að færa eða fella niður ferðir til þess að auka öryggi meðlima og leiðsögumanna.


  DagsetningFjall/LeiðVerð
  Janúar
  13 Brennisteinsfjöll og Kistufell

  Flokkur 1

  27

  Kóngsvegurinn yfir Mosfellsheiði.

  Flokkur 2

  Febrúar
  10

  Húsfellsbruni

  Flokkur 1

  24 - 25

  Helgarferð í Tindfjöll

  Flokkur 3

  Mars
  3

  Blikadalur, Skollabrekkur.

  Flokkur 1

  17 - 18

  Helgarferð yfir Fimmvörðuháls

  Flokkur 3

  Apríl
  7

  Súlnadalur

  Flokkur 2

  18 - 24

  Skíðaferð til Kulusuk

  Uppseld

  28

  Hengladalir.

  Flokkur 1

  Maí
  12

  Kálfstindar og Klukkutindar

  Flokkur 2

  18 - 21

  Hvítasunnuferð. Goðahnúkar á Vatnajökli (taka tvö).
  - Varaprógram verður Reykjafjörður á Hornströndum.

  59.000 kr

  29

  Þriðjudagskvöld : síðasta kvöldgangan og lokahóf.

  -

 • Verð

  Gönguskíðagengið

  Til þess að eiga möguleika á því að taka þátt í dagskrá Gönguskíðagengisins þurfa þátttakendur að vera skráðir í Gönguskíðagengið. Skráningargjald fyrir veturinn er 36.900 kr. Þegar gengið hefur verið frá skráningu hér á síðunni ert þú komin í hóp Gönguskíðagengisins.

  Með því að greiða skráningargjald fyrir Gönguskíðagengið opnast möguleiki á því að ferðast og æfa með hópunum Fjallafólk eða Fjallagengið á meðan áskriftin varir. Þátttakendur geta tekið þátt í kvöldgöngum og æfingum en greitt er sérstaklega fyrir lengri ferðir Fjallagengis og Fjallafólks. 

  Rétt er að benda á að ýmis stéttarfélög hafa niðurgreitt þátttökugjöld sem þessi. Sjá meðal annars reglur um Varasjóð VR. 

  Boðið er upp á 25% afslátt af árgjaldi fyrir hjón og sambúðarfólk. Semsagt 25% fyrir báða aðila eða fullt gjald fyrir einn og 50% afsláttur fyrir fjölskyldumeðlim. 
  Til að fá hjónaafsláttinn þarf að hafa samband við info@mountainguides.is eða hringja í síma 522 4975.

  Lengri gönguskíðaferðir

  Greitt er séstaklega fyrir hverja ferð fyrir sig og er verðið mismunandi eftir lengd og erfiðleikastigi ferðarinnar. 

  • Ferð í flokki 1 = 6.900 kr. 
  • Ferð í flokki 2 = 13.500 kr. 
  • Ferð í flokki 3 = 34.900 kr. 
  • Sérverð á helgar- og lengri ferðum

  (Sjá dagskrá fyrir fjölda ferða í hverjum flokki) 

  Þegar þátttakandi skráir sig í ferð borgar hann fyrir hana í leiðinni. 

  Athugið að útbúnaður ekki innifalinn í verði. Fjallaleiðsögumenn bjóða hins vegar útbúnað til leigu þegar á þarf að halda. Til langstíma er þó skynsamlegra að eignast slíkan útbúnað og geta leiðsögumenn verið til ráðleggingar um slíkt.

  Skráning í allar ferðir fer fram hér  : Skráning í ferðir 

  Innifalið í verði

  • Aðild að dagskrá Gönguskíðagengisins
  • Fagleg leiðsögn Íslenskra Fjallaleiðsögumanna
  • Vikulegar æfingar
  • Kynningarfundur og búnaðarkynning
  • Mánaðarlegar ferðir í nágrenni höfuðborgarinnar
  • Ríflegur afsláttur af ferðum
  • Fríðindapakki
  • Aðgengi að gönguhópnum Fjallafólk Fjallaleiðsögumanna og þeirra ferðum

  Ekki innifalið

  • Akstur (sjá tillögur að samkeyrslu þátttakenda)
  • Gisting og uppihald í lengri ferðum
  • Sérhæfður einstaklingsútbúnaður fyrir ferðir að vetrarlagi og jöklaferðir (s.s. skíði, skinn, tjöld). Búnað má leigja hjá Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum.
 • Nánar

  Akstur og samkeyrsla 

  Fjallaleiðsögumönnum er annt um náttúru landsins og umhverfi mannfólks. Þess vegna er mælst til þess að þátttakendur á okkar vegum sameinist í bíla eins og kostur er, enda er það umhverfisvænna og kostnaðarminna fyrir þátttakendur. 

  Meginreglan er sú að farþegar skipta á milli sín eldsneytiskostnaði, en ef farþegi er einn skipta hann og bílstjóri eldsneytiskostnaði á milli sín. 

  Aksturskostnaður er reiknaður fyrir sérhverja ferð út frá áætlun um fjölda kílómetra, verð á lítra eldsneytis og hvernig akstursleiðin er. 

  Farþegar sjá svo sjálfir að greiða sinn hlut í ferðinni eða semja við bílstjóra um að ganga frá því strax að ferð lokinni.  

  Samskipti og undirbúningur 

  Tölvupóstur með upplýsingum um fyrirhugaða dagskrárliði er sendur á þátttakendur Skíðagengisins fyrir sérhvern viðburð. Auk þess er Skíðagengið með hópsíðu á Facebook. 

  Fræðsla 

  Þó að dagskrá Gönguskíðagengisins byggist upp á ferðum verður engu að síður lögð áhersla á fræðslu um örugga ferðamennsku. Einu sinni að vetri er haldið eins dags vetrarferðamennskunámskeið þar sem meðal annars er farið í gegnum öryggi á fjöllum, rétt ferðahegðun kennd og ítarlega er farið í gegnum notkun GPS og áttavita.  

  Nauðsynlegur útbúnaður þátttakenda Skíðagengisins 

  • Gönguskíði með stálkönntum 
  • Gönguskíðabindingar 
  • Gönguskíðaskór 
  • Skinn undir skíði 
  • Skíðastafir með stillanlegri lengd 
  • Skíðabroddar 
  • Bakpoki, 30-45 lítrar, hentugur fyrir dagsferðir. ABS snjóflóðabúnaður og snjóflóðalungu (Avalung) eru æskilegur viðbótabúnaður sem oft er innbygður í skíðabakpoka (ekki skylda). 
  • Almennur útivistarfatnaður, þar með talið stakkur með góðri hettu, utanyfirbuxur sem renndar eru niður með hliðunum, utanyfirvettlingar. 
  • Snjóflóðaýlir (hægt að fá leigt) 
  • Skófla (hægt að fá leigt) 
  • Snjóflóðastöng (hægt að fá leigt) 
  • Ísexi (hægt að fá leigt) 
  • Mannbroddar undir skíðaskó (hægt að fá leigt) 
  • Létt klifurbelti til þess að nota á jökli (hægt að fá leigt)
 • Brottfarar dagsetningar
  Dagsetning Ferða Framboð  
  01.06 - 02.06 2018 Staðfest brottför Velja

Veldu fjölda farþega og brottfarar dagsetningu.