Fjallafólk HRH493 - 12 og 6 mánaða skráning

Frábært tækifæri til að ganga á fjöll í leiðsögn fagmanna

Erfiðleikastig:

AUÐVELT

ERFITT

Verð frá:  

Fullorðinn: 23900

 • Lýsing ferðar

  Fjallafólk

  Fjallafólk er gönguhópur á vegum Íslenskra Fjallaleiðsögumanna með það meginmarkmið að stunda fjallgöngur og útivist allt árið um kring. Dagskrá hópsins byggist í stuttu máli á vikulegum kvöldæfingum og/eða kvöldgöngum ásamt mánaðarlegum göngum á meira krefjandi fjöll í dagsfæri við Reykjavík. Fjallafólk og Fjallagengið eru sambærilegir hópar með mismunandi dagskrá þar sem meðlimir hafa aukinn sveigjanleika á dagsferðum þar sem meðlimir geta valið dagsferðir hjá hvorum hópnum fyrir sig eftir hentisemi.
  Upphaflega var hópur Fjallafólks settur á laggirnar sem sjálfstætt framhald hinnar vinsælu fjallgöngudagskrár Toppaðu sem skilaði yfir eitt þúsund göngumönnum og -konum á öllum aldri á hæsta tind landsins Hvannadalshnúk (2.110 m).

  Eins og svo margir vita er hver fjallganga einstakt ferðalag sem skilur eftir sig fjölmörg minningabrot. Ef til vill lituðu aðstæður á einhvern hátt minningarnar; skin og skúrir, einstakt sólarlag eða stjörnum prýddur næturhiminn. Kannski var það einstök samvinna hópsins, áhugaverðar umræður við samferðamenn eða hvernig þú nýttir reynslu þína og þekkingu til að yfirstíga erfiðar veðuraðstæður. Til langs tíma litið er víst að þú munt yfirstíga fjölmargt sem þú hefðir áður litið á sem hindranir og auka færni þína á mörgum sviðum svo ekki sé talað um hið einstaka samband við náttúruna sem verður sífellt traustara eftir því sem ferðunum fjölgar.

  Marga hryllir við tilhugsuninni um fjallgöngur í myrkri og kulda vetrarmánuðanna og vissulega er það meiri áskorun en fjallgöngur á hlýjum og björtum sumardegi. Þeir sem ganga reglulega á fjöll allt árið um kring vita að oftast er veðrið (aðstæðurnar) verst fyrir utan svefnherbergisgluggann ... en alls ekki svo slæmt þegar á hólminn er komið. Ef þú ert til í að bjóða vetrarmyrkri og rysjóttu veðri birginn áttu fullt erindi í Fjallafólk.

  Markmið Fjallafólks

  Fyrir utan það að stunda fjallgöngur og útivist allt árið um kring eru langtímamarkmið Fjallafólks meðal annars:

  • Að efla andlegt og líkamlegt heilbrigði með ástundun útivistar allt árið um kring
  • Að safna fjallstindum í fjallahring Reykjavíkur
  • Að safna fallegum fjallstindum
  • Að halda sér í líkamlegu ástandi til þess að geta notið þess að ganga á fjöll og koma brosandi heim.
  • Að stefna árlega, eða annað hvert ár á spennandi gönguferðir á erlendri grundu

  Á ég erindi í Fjallafólk?

  • Já ef þú vilt stunda fjallgöngur og útivist undir faglegri leiðsögn allt árið um kring
  • Já, ef þú hefur áður gengið á fjöll einn eða með öðrum en þyrstir í meira.
  • Já ef þú vilt komast á fjöll og fyrnindi sem þú færir annars ekki á
  • Já ef þú vilt safna fallegum fjallstindum
  • Ef þú hefur verið einn að þvælast en langar hærra og lengra og kippir þér ekki upp við félagsskap skemmtilegra göngufélaga!
  • Já ef þú hefur áhuga á fjallgöngum og útivist en hefur látið ýmislegt aftra því að sinna áhugamálinu, eins og t.d. tíma og veður.

  Nokkrar góðar ástæður fyrir þig til að ganga í raðir Fjallafólks

  • Útivist og fjallgöngur verða að lífstíl til framtíðar.
  • Heilsubætandi áhrif reglulegra fjallgangna eru óumdeilanleg.
  • Stemmningin við að ganga á fjöll í góðra vina hópi.
  • Fagleg leiðsögn þar sem öryggi þátttakenda er haft í hávegum.
  • Fámennur hópur og meiri sveigjanleiki í leiðarvali.
  • Til að sjá nýjar hliðar á veruleikanum.

  Fríðindi Fjallafólks

  Fyrir utan augljósan heilsufarslegan ávinning af reglulegum fjallgöngum standa þátttakendum í gönguhópum Fjallaleiðsögumanna margs konar fríðindi til boða:

  • Sérstök kynningar- og afsláttarkvöld
  • Afsláttur á námskeiðum Fjallaleiðsögumanna 
  • Jöklaganga í Skaftafelli eða á Sólheimajökli, boðsferð fyrir tvo.
  • Ferð utan dagskrár á Hvannadalshnjúk og/eða Hrútfjallstinda á sérkjörum (sama og flokkur 3)
  • 15.000 kr. Ferðaávísun sem gildir í allar staðfestar lengri ferðir Íslenskra Fjallaleiðsögumanna,nema sérferðir.

 • Dagskrá ferðar

  Dagskrá Fjallafólks 2018

  Dagskrá birt með fyrirvara um beytingar vegna veðurs og aðstæðna.

  DagsetningFjall/LeiðVerð
  Janúar -
  2 Þrekæfing -
  9 Þrekæfing -
  16 Þrekæfing / Vetraröryggisnámskeið -
  20 Skálafell (hin leiðin) Flokkur 1
  23 Þrekæfing / Vetraröryggisnámskeið -
  30 Þrekæfing -
  Febrúar -
  6 Þrekæfing -
  13 Þrekæfing -
  17 Skarðsheiði Flokkur 2
  20 Þrekæfing -
  27 Þrekæfing -
  Mars -
  6 Esja upp að Steini -
  13 Helgafell Í Mosfellsbæ -
  17 Syðstasúla Flokkur 2
  20 Úlfarsfell sinnum tveir -
  27 Mosfellshringur -
  Apríl -
  3 Helgafell í Hafnarfirði -
  10 Þyrilsnes, Hvalfirði -
  17 Keilir -
  21 Ýmir og Ýma Flokkur 2
  24 Snókur og Snóksfjall -
  Maí -
  1 Grímannsfell -
  8 Þverfell (Hafrahlíð) -
  12 Hvannadalshnúkur Flokkur 3
  15 Stóra Kóngsfell -
  22 Glymur í Botnsdal -
  29 Kambshorn Esju -
  Júní -
  2 Huldujökull úr Þakgili Flokkur 3
  5 Lyklafell (Litla og Stóra) -
  12 Syðri Eldborg -
  19 Fíflavallafjall -
  26 Meitill -
  Júlí -
    Sumarfrí -
  13-15 Innri Veðurárdalur -
  Ágúst -
  7-15 Utanlandsferð - Dolomites (Uppselt) -
  21 Vífilsfell -
  28 Reykjaborg (Hafrahlíð) -
  September -
  4 Reynivallaháls - Gíslagata -
  8 Tröllakirkja í Kolbeinsstaðafjalli Flokkur 2
  11 Dýjadalshnúkur -
  18 Geitahlíð -
  25 Langihryggur og Stórihrútur -
  Október -
  2 Stapatindar -
  9 Undirhlíðar (Krýsuvík) -
  16 Vatnshlíðarhorn -
  20 Skessuhorn Flokkur 2
  24 Úlfarsfell sinnum tveir -
  30 Esja upp að Steini -
  Nóvember -
  6 Þrekæfing -
  13 Þrekæfing -
  20 Þrekæfing -
  24 Gunnlaugsskarð - Þverfellshorn Flokkur 1
  27 Þrekæfing -
  Desember -
  4 Þrekæfing -
  11 Þrekæfing -
  18 Þrekæfing -
  22 Grímannsfell Flokkur 0 (ókeypis)
  25 Jólafrí -

 • Nánar

  Fjallgöngur og æfingar

  Dagskrá Fjallafólks skiptist í vikulegar kvöldæfingar og mánaðarlegar fjallgöngur.

  Vikulegar kvöldæfingar

  Á vikulegum kvöldæfingum (Þriðjudags þrekæfingum) er lögð áhersla á þol- og styrktarþjálfun. Um tíu sinnum á sérhverju starfsári, gjarnan á vorin og haustin, er haldið á fjöll og fell í nágrenni Reykjavíkur. Vikulegar kvöldæfingar eru á þriðjudögum og hefjast ávallt kl. 18, nema annað sé sérstaklega tekið fram í tölvupósti til félaga. Á hefðbundinni þrekæfingu er byrjað með 15 mínútna strunsi (upphitun) en síðan framkvæmdar fjölbreyttar æfingar með áherslu á almennan líkamsstyrk þar sem nær engöngu er unnið með eigin líkamsþyngd. Kvöldæfingar yfir vetrartímann eru yfirleitt haldnar í Öskjuhlíð en einnig hefur hópurinn æft í Heiðmörk, í Elliðaárdal og í Kópavogi.

  Mánaðarlegar fjallgöngur

  Í mánaðarlegum fjallgöngum (a.m.k. 11 fjöll yfir árið) verður gengið á mörg falleg og krefjandi fjöll í dagsfæri við borgina (sjá hér að ofan undir flipanum „Dagskrá“ ). Sjö af þessum fjöllum eru í þægilegu dagsfæri við borgina (að hámarki 2:00 akstursfjarlægð), fjögur fjöll eru langar dagleiðir og a.m.k. ein í Öræfin þar sem reikna ætti með því að gista tvær nætur. Rétt er að undirstrika að í fjallgöngum Fjallafólks er markmiðið ekki að sigra klukkuna í viðureign við tindinn heldur að koma brosandi heim. Allur sperringur, sem þó er svo mikilvægur á þrekæfingunum ;-) er látin lönd og leið. Í fjallgöngum nýtur Fjallafólk þess hins vegar að vera í góðu formi eftir þriðjudagsþrekæfingar hópsins.

  Kynning á Fjallafólki

  Ljósmyndir úr ferðum með tónlist á Youtube

  Öryggi og betri þjónusta

  Í öllum fjallgöngum Fjallafólks eru að hámarki 16 þátttakendur á hvern leiðsögumann og færri þegar gengið er á jöklum. Hátt hlutfall leiðsögumanna eykur öryggi þátttakenda og tryggir um leið betri þjónustu. Lágt hlutfall á hvern leiðsögumann bíður einnig uppá möguleikann að hraðaskipta hópnum ef þörf krefur. Hámarksskráning í Fjallafólk er 50 manns.

  Hvað þarf ég? Nauðsynlegur útbúnaður þátttakenda

  Það er engin ástæða til að hlaupa út í búð og kaupa nýjasta útivistarfatnaðinn og -útbúnaðinn til að geta tekið þátt í ferðum Fjallagengisins. Þrekæfingar krefjast ekki annars en léttra göngu- eða íþróttaskóa og þægilegs klæðnaðar. Í mánaðarlegum kvöldgöngum þarf að klæða sig eftir veðri en í mánaðarlegum dagsgöngum á laugardögum er mikilvægt að meðfylgjandi lista sé fylgt: 

  • Fjallgönguskór (mjúkir eða millistífir) 
  • Hlýr og skjólgóður fatnaður (jakki og buxur)
  • Hlýr nærfatnaður (ull eða viðurkennd gerviefni en ekki bómull)
  • 25-35 lítra bakpoki
  • Hlý peysa
  • Húfa og vettlingar
  • Utanyfirvettlingar (við vetraraðstæður)
  • Góðir vatnsheldir gönguskór (mjúkir eða hálfstífir)
  • Legghlífar (eftir aðstæðum) GSM-sími
  • Ennisljós

  Annað – öryggi og tryggingar:

  IFLM áskilur sér rétt til þess að breyta út af fyrirhugaðri dagskrá ef öryggi þátttakenda þykir ógnað.
  Allar fjallgöngur fela í sér áhættu.
  Öryggi viðskiptavina í ferðum Fjallaleiðsögumanna er ávallt í fyrsta sæti og þess vegna leggja Fjallaleiðsögumenn mikla áherslu á hættumat og fyrirbyggjandi ráðstafanir í menntun leiðsögumanna sinna.
  Þátttakendur eru á eigin ábyrgð í ferðum Fjallaleiðsögumanna.
  Þátttakendum er bent á að leita sér upplýsinga um tryggingar hjá tryggingafélögum.
  Hlutverk leiðsögufólks Fjallaleiðsögumanna er ekki að koma fólki á toppinn – heldur að allir komi heilir heim.

 • Verð

  Skráning og verð

  Þátttökugjald fyrir heilt ár 36.900 kr. en hálft ár 23.900. Hvert tímabil miðast út frá 1. næsta mánuð eftir skráningu.

  Boðið er upp á 25% afslátt af árgjaldi fyrir hjón og sambúðarfólk. Semsagt 25% fyrir báða aðila eða fullt gjald fyrir einn og 50% afsláttur fyrir fjölskyldumeðlim.
  Til að fá hjónaafsláttinn þarf að hafa samband við info@mountainguides.is eða hringja í síma 522 4975.

  Þegar gengið hefur verið frá skráningu hér á síðunni ert þú komin í hóp Fjallafólks. Rétt er að benda á að ýmis stéttarfélög hafa niðurgreitt þátttökugjöld sem þessi. Sjá meðal annars reglur um Varasjóð VR.

  Laugardagsfjallgöngur

  Greitt er séstaklega fyrir hverja laugardagsfjallgöngu og er verðið mismunandi eftir lengd og erfiðleika ferðarinnar. Alls eru fjallgöngurnar 11 á starfsárinu en greitt er við skráningu í hverja ferð fyrir sig. Verðflokkarnir eru eftirfarandi:

  • Fjall í flokki 1 = 6.900 kr.
  • Fjall í flokki 2 = 13.500 kr.
  • Fjall í flokki 3 = 25.900 kr.

  (Sjá dagskrá fyrir fjölda ferða í hverjum flokki)

  Skráning í allar ferðir fer fram hér : skráning

  Innifalið í þátttökugjaldi/árgjaldi Fjallafólks:

  Að minnsta kosti 44 þriðjudagsþrekæfingar miðað við fullt ár. Afsláttur á verði mánaðarlegra fjallgangna (a.m.k. 11 á fullu starfsári) Ýmis sérkjör (fríðindi)

  Samskipti og undirbúningur:

  Tölvupóstur með upplýsingum um fyrirhugaða þrekæfingu, dagsferð eða annað er sendur á félaga Fjallafólks fyrir sérhvern viðburð.

  Skilmálar:

  Öllum er heimil þátttaka í dagskrá Fjallafólks
  Börn undir 16 ára aldri eru á ábyrgð foreldra sinna eða forráðamanna í öllum ferðum Fjallafólks.
  Hin almenna regla er að börn yngri en 12 ára fá ekki að fara í ferðir á jöklana; Snæfellsjökul, Hvannadalshnúk, Tindfjallajökul og Eiríksjökul.
  Að því gefnu að börn hafi mætt í alla dagskrárliði Fjallafólks og að höfðu samráði yfirleiðsögumanns Fjallafólks og foreldra verður hæfni barna 12-15 ára, til að ganga á jöklana, metin.
  Frítt er fyrir börn (í fylgd foreldra) yngri en 12 ára í allar vikulegar kvöldæfingar.
  12 – 15 ára börn fá helmings afslátt af verði forráðamanns.

  Innifalið:

  Leiðsögn, ýmis sérkjör, búnaður (broddar, axir, hjálmar, belti) og fræðsla
  Vikulegar þrekæfingar/kvöldgöngur
  Mánaðarlegar dagsgöngur á sérkjörum - sjá verðflokkana og dagskrá

  Ekki innifalið:

  Akstur til og frá áfangastað

  Hafið í huga:

  Alla jafna er lagt af stað frá bensínstöð N1 í Ártúnsbrekkunni, nema annað sé tekið fram í pósti. Farið er á eigin bílum að uppgöngustað en leitast við að sameinast í bíla eins og kostur er.

  Fjallaleiðsögumenn ... örugglega á fjöllum

 • Brottfarar dagsetningar
  Dagsetning Ferða Framboð  
  30.09 - 01.10 2018 Staðfest brottför Velja

Veldu fjölda farþega og brottfarar dagsetningu.

Athugið

Skráningin hér að ofan er fyrir 6 og 12 mánaða tímabil og tekur gildi 1. næsta mánaðar.