Brattgengið - HRH396

Vönduð námskeið, glæsilegir tindar og krefjandi aðstæður undir faglegri leiðsögn Íslenskra Fjallaleiðsögumanna.

Erfiðleikastig:

AUÐVELT

ERFITT

Verð frá:  

Fullorðinn: 36900

 • Lýsing ferðar

  Brattgengið - Kynning

  „Frábær upplifun undir öruggri handleiðslu fagmanna“

  Brattgengið er fjallamennskuhópur Íslenskra Fjallaleiðsögumanna og hugsað fyrir þá sem þegar hafa aflað sér reynslu af göngum og útivist en langar að auka færni sína og reynslu enn frekar. Í Brattgenginu fá þátttakendur þjálfun í hinum ýmsu aðferðum fjallamennskunnar og spreyta sig á flóknari verkefnum en áður. Glæsilegir og stundum torsóttir tindar eru klifnir með öryggi að leiðarljósi.

  Þátttakendur í Brattgenginu fara í gegnum fjölda námskeiða og byggja þannig upp færni til að takast á við þau krefjandi verkefni sem framundan eru. Á þremur námskeiðum sem haldin eru að vetri til eru kenndar klassískar aðferðir vetrarfjallamennskunnar. Í byrjun sumars er svo námskeið í klettaklifri.

  Auk námskeiða og ferða sem eru sérstaklega fyrir þá sem eru í Brattgenginu geta þeir mætt á þrek- og gönguæfingar tvisvar í viku.

  Brattgengið er lítill hópur og fjöldi þátttakenda á hvern leiðsögumann er frá 1:6 að hámarki og niður í 1:2 þegar aðstæður eru hvað mest krefjandi. Lágmarksfjöldi þátttakenda í Brattgenginu er fjórir.

  Þetta er sjötta starfsár Brattgengisins. Eftir frábært fyrsta ár var ákveðið að halda áfram og annað árið sannaði að Brattgengið var komið til að vera.

  Hægt er að bóka pláss í Brattgenginu á netinu eða með því að hafa samband við skrifstofu Íslenskra Fjallaleiðsögumanna (587-9999, fyrirspurn@mountainguides.is).

 • Dagskrá ferðar

  Brattgengið - Dagskrá 2017-2018

  „Þetta verkefni er virkilega skemmtilega og vel uppsett. Sjálfstraust og kunnátta þátttakenda er byggð upp jafnt og þétt. “

  Fjöldi þátttakenda á hvern leiðsögumann í viðkomandi ferð/námskeið er innan sviga. Einn leiðsögumaður á hverja tvo þátttakendur er til að mynda (1:2). Ef allt að fjórir geta verið með hvejrum leiðsögumanni stendur (1:4) og svo framvegis.

  Dagskrá er háð veðri og vindum og við áskiljum okkur rétt til þess að breyta henni ef þess gerist þörf. Að sama skapi erum við mjög sveigjanleg og getum hnikað til eða bætt við dagsetningum ef það hentar hópnum betur. 

  Nóvember

  22. Miðvikudagskvöld kl 20:00.Undirbúningur fyrir ísklifurnámskeið. Einnig verður farið betur yfir dagskrá vetrarins, fjallað um útbúnað og afsláttarkjör til Brattgengisins. 

  25. Laugardagur- Ísklifurnámskeið (1:4). Námskeiðið er haldið á Sólheimajökli. Lágmarksþátttaka 3.

  Forkröfur: Engar. Verð: 35.900 kr.

  Desember

  2. Laugardagur - Ísklifurferð (1:2). Klifrað verður í ísfossum í nágrenni Reykjavíkur, valið verður klifur sem hentar getustigi þeirra sem skrá sig í ferðina. Lágmarksþátttaka 2 (Hleypur á tveim, þriðji mun fara á biðlista þar til sá fjórði bætist við o.s.frv)

  Forkröfur: Ísklifurnámskeið á Sólheimajökli eða sambærilegt (metið af yfirleiðsögumanni). Verð: 45.900 kr.

  16. Laugardagur - Ísklifurferð (1:2). Klifrað verður í ísfossum í nágrenni Reykjavíkur, valið verður klifur sem hentar getustigi þeirra sem skrá sig í ferðina. Lágmarksþátttaka 2 (Hleypur á tveim, þriðji mun fara á biðlista þar til sá fjórði bætist við o.s.frv)

  Forkröfur: Ísklifurnámskeið á Sólheimajökli eða sambærilegt (metið af yfirleiðsögumanni). Verð: 45.900 kr.

  Janúar

  20. Laugardagur - Ísklifurferð (1:2). Klifrað verður í ísfossum í nágrenni Reykjavíkur, valið verður klifur sem hentar getustigi þeirra sem skrá sig í ferðina. Lágmarksþátttaka 2 (Hleypur á tveim, þriðji mun fara á biðlista þar til sá fjórði bætist við o.s.frv)

  Forkröfur: Ísklifurnámskeið á Sólheimajökli eða sambærilegt (metið af yfirleiðsögumanni). Verð: 45.900 kr.

  Febrúar

  10. – 11. Helgarferð - Vetrarfjallamennskunámskeið (1:6). Gist verður í snjóhúsi eða tjöldum. Námskeiðið fer fram á Snæfellsnesi. Á þessu námskeiði verður meðal annars farið í ísaxarbremsu, ýlaleit, leiðarval og fleira sem tengist ferðum í fjalllendi að vetrarlagi. Lágmarksþátttaka 4.

  Forkröfur: Engar. Verð: 49.900 kr.

  24. Laugardagur - NA-hryggur Skessuhorns (1:4). Þessi hryggur er klassísk klifurleið í vetraraðstæðum. Reynsla úr fyrri ferðum og námskeiðum mun hér nýtast vel til að komast upp eftir hryggnum og upp á topp Skessuhorns. Ferðast er um snjóbrekkur og klifrað upp ís- og klettahöft. Lágmarksþátttaka 3.

  Forkröfur: Þátttakendur þurfa að hafa farið á ísklifurnámskeið á jökli og vetrarfjallamennskunámskeið. Verð: 39.900 kr.

  Mars

  10. Laugardagur - Tröllakirkja í Kolbeinstaðafjalli (1:4). Tröllakirkja er falleg en fáfarin. Auðveldasta aðgengið er að suðvestan og hingað til verið farið að sumri til. Við stefnum á að fara norðan megin upp, þræða hryggi og ísilagðar hlíðar og ná alveg upp að hinum geysifallegu stöplum og strýtum sem prýða toppinn. Lágmarksþátttaka 3. 

  Forkröfur: Ísklifurnámskeið og vetrarfjallamennskunámskeið. Verð: 39.900 kr.

  24. Laugardagur - Ísklifurferð (1:2). Klifrað verður í ísfossum í nágrenni Reykjavíkur, valið verður klifur sem hentar getustigi þeirra sem skrá sig í ferðina. Lágmarksþátttaka 2 (Hleypur á tveim, þriðji mun fara á biðlista þar til sá fjórði bætist við o.s.frv)

  Forkröfur: Ísklifurnámskeið á jökli eða sambærilegt (metið af yfirleiðsögumanni). Verð: 45.900 kr.

  Apríl

  14. – 15. Helgarferð - Jöklanámskeið (1:4). Á námskeiðinu er þátttakendum kennt að ferðast um jökla á öruggan hátt. Farið er á Sólheimajökul; fyrri dagurinn á harðís og sá seinni í jökulsprungum. 

  Forkröfur: Ísklifurnámskeið á Sólheimajökli eða sambærilegt (metið af yfirleiðsögumanni). Verð: 39.900 kr.

  Maí

  5. – 6. Helgarferð - Hrútsfjallstindar í Öræfum (1:4). Stefnt er á að ná öllum fjórum Hrútsfjallstindunum í einni ferð. Kunnátta og reynsla fyrri viðburða mun nýtast vel í þessu krefjandi verkefni. Gist er í tjöldum á jöklinum.

  Forkröfur: Ísklifurnámskeið á jökli og jöklanámskeið. Verð: 69.900 kr.

  Júní

  9. Laugardagur - Klettaklifurnámskeið (1:6). Námskeiðið er haldið i Valshamri og kennd eru undirstöðuatriði í klettaklifri. Farið verður í klifur í ofanvaði sem og leiðsluklifur. Kynnt er notkun á ýmsum klifurbúnaði sem nýtist bæði í sport- og dótaklifri (trad-climbing). Lágmarksþátttaka 3. 

  Forkröfur: Engar. Verð: 35.900 kr.

  23. Laugardagur - Klettaklifur (trad-climbing) (1:2). Klifrað í Stardalshnúk. Á klettaklifursvæðinu í Stardalshnjúk eru ekki boltar og þvi þarf að beita öðrum aðferðum við að tryggja í klifri. Að sumra mati er þetta göfugra klifur en þegar klippt er í bolta sem áður hafa verið boraðir inn í bergið - en öðrum finnst þetta bara flækja málin. Lágmarksþátttaka 2 (Hleypur á tveim, þriðji mun fara á biðlista þar til sá fjórði bætist við o.s.frv)

  Forkröfur: Klettaklifurnámskeið eða sambærilegt (metið af yfirleiðsögumanni). Verð: 45.900 kr.

  Júlí

  14. – 15. Helgarferð - Þumall (2:4). Tveggja daga klettaklifurferð þar sem markmiðið er að klifra hinn glæsilega Þumal í Öræfum. Gengið er inn Morsárdalinn og upp á jökulbreiðu Vatnajökuls. Sannkölluð ævintýraferð með útsýni yfir hin litríku fjöll Kjósarinnar og í góðu skyggni sést vel inn á Vatnajökul. Lágmarksþátttaka 4 (fimmti er á biðlista þar til sá sjötti bætist við og s.frv.)

  Forkröfur og verð : Klettaklifurnámskeið eða sambærilegt (metið af yfirleiðsögumanni). Verð: 69.900 kr.


  „Hefði ekki viljað missa af þessu […] Ætla aftur “

 • Nánar

  Brattgengið

  Fámennur og öflugur hópur

  Að hámarki eru tólf þátttakendur í Brattgenginu. Ekki er hægt að ganga í raðir hópsins eftir námskeið nema viðkomandi hafi áður setið svipað námskeið, búi yfir reynslu og hljóti blessun yfirleiðsögumanns.

  Dagskrá Brattgengisins er byggð upp þannig að þátttakendur öðlist eftir því sem líður á aukna færni sem er nauðsynleg til að kljást við sífellt meira krefandi verkefni síðar á tímabilinu.

  „Umsjónarmenn Brattgengisins eru fagmenn fram í fingurgóma og miðla þekkingu sinni og reynslu skemmtilega og eftirminnilega til þátttakenda“

  Reyndir fjallaleiðsögumenn

  Fjöldi fjallaleiðsögumanna sem fylgja hópnum á hverju námskeiði eða ferð, fer eftir fjölda þátttakenda í hvert skipti og hvers eðlis verkefnið er. Hlutfallið er breytilegt frá 1:6 og niður í 1:2 í þeim verkefnum sem eru mest krefjandi.

  Lágt hlutfall þátttakenda á hvern leiðsögumann tryggir gæði og persónulega þjónustu. Aðeins okkar allra reyndustu fjallaleiðsögumenn vinna með Brattgenginu.

  Aðalleiðbeinandi Brattgengisins er Björgvin Hilmarsson, en hann er öllum kunnugur sem hafa tekið þátt í Brattgenginu á liðnum árum.  Hann mun hafa umsjón með námskeiðum og ferðum. 

  Þeir sem vilja frekari upplýsingar áður en þeir skrá sig er bent á að hafa samband við Helgu Maríu (helga@fjallaleidsogumenn.is) 

  Námskeið -

  Ísklifur, vetrarfjallamennska, jöklaferðamennska og klettaklifur

  Á námskeiðum læra brattgengir m.a. ...

  • undirstöðuatriði leiðavals í fjalllendi 
  • um ferðamennsku á jöklum
  • að beita broddum í brattlendi 
  • að beita gönguöxi í brattlendi
  • að stöðva sig með ísaxarbremsu
  • að meta hættur á jöklum
  • að tryggja öryggi sitt með línu á jöklum
  • að síga með ýmsum aðferðum
  • að klifra upp fasta línu
  • að bjarga sér úr jökulsprungu
  • að setja upp einfalda félaga-/sprungubjörgun
  • að ferðast að vetrarlagi þar sem gist er í tjöldum eða snjóhúsum
  • um ferli klifurs
  • sitthvað um megintryggingar og millitryggingar í klettum, ís og snjó
  • að tryggja öryggi sitt með aðstoð línu í brattlendi

  Nauðsynlegur útbúnaðarlisti þátttakenda í Brattgenginu

  • Hjálmur
  • Alstífir skór
  • Broddar 
  • Gönguísöxi
  • Klifuraxir (par)
  • Klifur-/jöklabelti
  • Fjórar læstar karabínur
  • Tvær ólæstar karabínur 
  • Skófla 
  • Snjóflóðaýlir 
  • Snjóflóðastöng 

  Best er að hver þátttakandi sé að nota sinn eigin búnað. Þar til viðkomandi hefur komist yfir þennan nauðsynlegasta búnað er þó hægt að fá sitthvað lánaðan frá Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum.

  Annað – öryggi og tryggingar:

  • Íslenskir Fjallaleiðsögumenn (ÍFLM) áskilja sér rétt til þess að breyta út af fyrirhugaðri dagskrá ef öryggi þátttakenda þykir ógnað. - Allar fjallgöngur fela í sér áhættu.
  • Öryggi þátttakenda í ferðum ÍFLM er ávallt í fyrsta sæti og þess vegna er lagt mikið upp úr hættumati og fyrirbyggjandi ráðstöfunum í menntun leiðsögumanna ÍFLM.
  • Þátttakendur eru á eigin ábyrgð í ferðum ÍFLM.
  • Þátttakendum er bent á að leita sér upplýsinga um tryggingar hjá tryggingafélögum.
  • Meginhlutverk leiðsögufólks ÍFLM er ekki að koma fólki á toppinn – heldur að tryggja að allir komi heilir heim.

  Fríðindapakki

  Fyrir utan augljósan heilsufarslegan ávinning af reglulegum fjallgöngum og öðrum æfingum, standa þátttakendum í gönguhópum ÍFLM margs konar fríðindi til boða:

  • Afsláttur af námskeiðum ÍFLM 
  • Jöklaganga í Skaftafelli eða á Sólheimajökli, boðsferð fyrir tvo
  • Ferðaávísun sem gildir í allar lengri ferðir ÍFLM
  • Aðgengi að dagskrá Fjallafólks og Fjallagengis.*

  *Fjallafólk og Fjallagengi eru með vikulegar æfingar sem þátttakendur í Brattgenginu geta tekið þátt í þeim að kostnaðarlausu. Fjallafólk er með æfingar á þriðjudögum og Fjallagengi á miðvikudögum. Þessar æfingar eru annað hvort þrekæfingar eða styttri fjallgöngur í nágrenni Reykjavíkur. Þessir hópar eru einnig með ferðir einu sinni í mánuði sem greitt er fyrir sérstaklega. Brattgengið hefur einnig aðgang að þessum ferðum.

 • Verð

  Brattgengið - Verð

  Verð og greiðslukjör

  Til þess að eiga möguleika á því að taka þátt í dagskrá Brattgengisins þurfa þátttakendur að vera skráðir í Brattgengið. Skráningargjald fyrir veturinn er 36.900 kr. Lágmarksfjöldi þátttakenda er fjórir.

  Með því að greiða skráningargjald fyrir Brattgengið opnast möguleiki á því að ferðast og æfa með hópunum Fjallafólk eða Fjallagengið á meðan áskriftin varir.  Þátttakendur geta tekið þátt í kvöldgöngum og æfingum en greitt er sérstaklega fyrir lengri ferðir Fjallagengis og Fjallafólks.

  Þegar gengið hefur verið frá skráningu hér á síðunni ert þú komin í hóp Brattgengis. Rétt er að benda á að ýmis stéttarfélög hafa niðurgreitt þátttökugjöld sem þessi. Sjá meðal annars reglur um Varasjóð VR.

  Greitt er séstaklega fyrir hverja ferð fyrir sig og er verðið mismunandi eftir lengd og erfiðleikastigi ferðarinnar. Þegar þátttakandi skráir sig í ferð borgar hann fyrir hana í leiðinni. 

  Innifalið:

  Fagleg leiðsögn, sérhæfður klifur og öryggisútbúnaður hópsins s.s. línur, ísklifuraxir, klifurtryggingar, fjarskiptatæki, tjöld og eldunarbúnaður. Þátttakendum í Brattgenginu er velkomið að mæta á þrekæfingar Fjallafólks á þriðjudögum og Fjallagengisins á miðvikudögum. Að auki er hægt að taka þátt í laugardagsgöngum Fjallafólks og Fjallagengis á sömu kjörum og meðlimir þeirra hópa.

  Ekki innifalið

  Akstur, gisting og sérhæfður persónulegur útbúnaður s.s. svefnpoki, dýna, broddar, belti, gönguöxi, snjóflóðaýlir, snjóflóðastöng, skófla og annað sem tiltekið er sem nauðsynlegur útbúnaður þátttakenda í Brattgenginu. Hluta af þessum búnaði má leigja af Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum. Einnig bjóða nokkrar útivistarbúðir okkur góða afslætti sem má nýta sér. 

  Gert er ráð fyrir að þátttakendur leggi til eigin bíla þegar farið er í ferðir og taki leiðbeinendur með sér. Það er einn liður í að halda verði á Brattgenginu í lágmarki. Hvetjum auðvitað fólk til þess að sameinast í sem fæsta bíla af augljósum ástæðum.

  „Þátttakendur upplifa því marga litla og stóra sigra í þessu verkefni.“

Vinsamlegast hafið samband við okkur fyrir frekari upplýsingar um brottfarir í boði.

Skráning í Brattgengið 2016- 2017 stendur nú yfir.

Til að fá upplýsingar eða skrá sig í Brattgengið fyrir tímabilið 2016-2017 hafið samband í gegnum fyrirspurn@mountainguides.is