Íslenskir Fjallaleiðsögumenn ehf.

Fyrirtækið Íslenskir Fjallaleiðsögumenn var stofnað 1994 af fjórum félögum sem höfðu áhuga á að bjóða ferðamönnum upp á fleiri möguleika í ferðamennsku en fram að því höfðu verið í boði, opna augu almennings fyrir fjallaferðum, stuðla að verndun viðkvæmrar náttúru norðurslóða og auka gæði og fagmennsku í leiðsögn. Íslenskir Fjallaleiðsögumenn fylgja umhverfismarkmiðum World Wildlife Fund fyrir ferðaþjónustu á heimskautasvæðum og hafa tekið þátt í samnorrænu umhverfissamstarfi FINECO varðandi sjálfbæra umgengni við náttúruna. Fyrirtækið hefur tekið virkan þátt í umræðu um náttúruvernd á Íslandi sem og erlendis og setið í stjórnum og ráðum sem varða umhverfisvernd og ferðamennsku. Í ferðum Íslenskra Fjallaleiðsögumanna ehf er hugmyndafræði Leave No Trace Principles höfð í hávegum, en það eru leiðbeinandi umgengnisvenjur um sjálfbæra ferðamennsku á ósnortnum svæðum og miðar að því að draga úr óhjákvæmilegu álagi af völdum ferðamanna. Markmiðið er að þeir sem fylgja í spor Íslenskra Fjallaleiðsögumanna sjái ekki að þar hafi aðrir verið á ferð.

Vakinn - Gæða- og umhverfisvottun ferðaþjónustunnar

Árið 2015 urðu Íslenskir Fjallaleiðsögumenn fyrst fyrirtækja sem bjóða upp á bakpoka- og gönguferðir á Íslandi, til að hljóta gæða- og umhverfisvottun Vakans. Með vottuninni staðfestist að Íslenskir Fjallaleiðsögumenn sinna gæða- og umhverfismálum af fagmennsku og heiðarleika.

Ábyrg Ferðaþjónusta

Í ársbyrjun 2017 voru Íslenskir Fjallaleiðsögumenn meðal 340 fyrirtækja sem skrifuðu undir yfirlýsingu um ábyrga ferðaþjónustu.

Tilgangur verkefnisins miðar að því að Ísland verði ákjósanlegur áfangastaður ferðamanna til framtíðar sem styður við sjálfbærni fyrir komandi kynslóðir þjóðarinnar.

Með undirritun yfirlýsingar um ábyrga ferðaþjónustu hafa Íslenskir Fjallaleiðsögumenn skuldbundið sig til að:

  1. Ganga vel um og virða náttúruna.
  2. Tryggja öryggi gesta okkar og koma fram við þá af háttvísi.
  3. Virða réttindi starfsfólks.
  4. Hafa jákvæði áhrif á nærsamfélagið.

Ábyrg Ferðaþjónusta

Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu 2009

Fyrirtækið hlaut verðlaunin fyrir markvissa umhverfisstefnu sem hefur það að leiðarljósi að öll ferðamennska á vegum fyrirtækisins sé sjálfbær og fyrir áralanga baráttu fyrir verndun viðkvæmrar náttúru norðurslóða með hagsmuni næstu kynslóða í huga. Einnig var fyrirtækið tilnefnt til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs árið 2011.

Eftirfarandi dæmi sýna hve stóran sess umhverfismálin skipa í starfsemi fyrirtækisins:

Fyrirtækið sérhæfir sig í jöklagöngum undir handleiðslu sérmenntaðra leiðsögumanna þar sem ferðirnar snúast um að koma ferðamanninum í beina snertingu við ís, og þá sérstaklega bláan ís: að hann gangi á, snerti og horfi á ís. Á skriðjöklum sem ná niður á láglendi, t.d. á Sólheimajökli í Mýrdalssveit og Svínafellsjökli í Öræfasveit, eru aðstæður eins og best verður á kosið; auðvelt aðgengi og greiðfærar leiðir fyrir göngufólk ásamt fjölda sérstakra náttúrundra eins og vatnssvelgja, drýla, sprungna, ísganga og jöklamúsa. Slíkt míkró landslag býður upp á einstæða náttúruupplifun sem sér í lagi er að finna á skriðjöklum og þar með á Íslandi. Auk þess er ferðin ævintýraleg, þar sem gengið er á broddum með ísöxi í hönd. Í ferðunum er lögð áhersla á fræðslu um jöklana, bráðnun þeirra og áhrif á landslag og búsetu og hvernig kynslóð fram af kynslóð hefur lifað í sambýli við þá í gegnum aldirnar. Fyrirtækið býður ferðamönnum upp á mismunandi erfiðleikastig í ferðum sínum, allt niður í 8 ára börn geta farið í jöklagöngu í fylgd með foreldrum sínum. Einnig er boðið upp á aðrar erfiðari jöklaferðir sem höfða til þrengri hópa, svo sem ísklifur og lengri fjallgöngur t.d á Hvannadalshnjúk og Hrútfjallstinda.

Á þeim svæðum sem fyrirtækið rekur ferðir leggur það sig fram um að skipta við heimamenn, t.d. hvað varðar gistingu, mat og fluttning á búnaði og farþegum.

Fyrirtækið sérhæfir sig í gönguferðum sem eru í eðli sínu umhverfisvænar. Miðað er við að notkun bíla eða annarra vélknúinna farartækja sé í lágmarki og markmiðið er alltaf að fá fólk út úr farartækjunum til að upplifa náttúruna.

Íslenskir Fjallaleiðsögumenn eru meðvitaðir um að þeir eru hluti af samfélaginu og reyna eftir fremsta megni að leggja sitt af mörkum því til hagsbóta. Fyrirtækið hefur átt fulltrúa í stjórn Í Ríki Vatnajökuls frá 2008 og einnig í varastjórn klasans Friður og Frumkraftur í Skaftárhreppi. Fulltrúar frá fyrirtækinu hafa setið í nefndum og stjórn SAF, þar á meðal í umhverfisnefnd, Íslandsstofu og ferðamálaráði Íslands. Fyrirtækið hefur komið að vinnu við gerð rammaáætlunar 1 og 2, skilar reglulega inn athugasemdum við nefndarálit, lög og reglugerðir sem eru til umræðu í ráðuneytum og á Alþingi. Fyrirtækið hefur gert athugasemdir við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og skipulagstillögur sveitarstjórna. Fyrirtækið hefur tekið virkan þátt í umræðum um náttúruvernd, hérlendis sem erlendis, veitt fjárhagslegan stuðning við frjáls náttúruverndarsamtök og stutt við verkefni sem tengjast náttúruvernd.

Fyrirtækið hefur sett upp fræðsludaga og -kvöld fyrir starfsmenn þar sem meðal annars er farið yfir umhverfisstefnu fyrirtækisins og mögulegar beinar aðgerðir starfsmanna til að draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið meðan á ferðum stendur. Leiðsögumenn hjá Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum skulu alltaf vera til fyrirmyndar í ferðum hvað umgengni við náttúruna varðar. Markmiðið er að taka aðeins myndir og minningar og skilja einungis eftir fótspor. Ávallt skal minna viðskiptavinina á að ekki er ásættanlegt að skilja eftir rusl. Sýna skal gott fordæmi, ef leiðsögumenn sjá rusl á leiðinni, t.d. á jöklinum, skal það tekið með niður og kúnnarnir hvattir til að gera slíkt hið sama. Almennt er fólk vakið til umhugsunar um nauðsyn þess að ganga vel um náttúruna. Þótt ýmsar gerðir lífræns úrgangs rotni tiltölulega hratt í hita að sumri til þá á það ekki við í litlum hita og sérstaklega ekki í snjó og á jökli. Allur úrgangur sést vel á jökli, jafnvel það sem fólk heldur að sjáist ekki. Gott fordæmi leiðsögumanns vekur athygli viðskiptavina og getur haft uppbyggjandi áhrif á þá til frambúðar.

Haldin hafa verið vistakstursnámskeið fyrir bílstjóra hjá fyrirtækinu sem og aðra starfsmenn.

Fyrirtækið fylgir umhverfisstefnu á skrifstofu og lager. Pappi, plast, málmar, fernur, gler, rafhlöður og lífrænn úrgangur er flokkað og skilað til endurvinnslu eða endurnýtt allt árið.

Samgöngustyrkur er í boði fyrir alla þá starfsmenn skrifstofu fyrirtækisins sem nota umhverfisvænni samgöngur til og frá vinnu.

Currency Settings

Choose your currency

Please note that our currency exchange rate is taken from the Icelandic Central Bank and might differ slightly from your bank's currency rate. Additionally, all charges are made in Icelandic Krona (ISK).

Select currency:

Iceland Rovers - Search

Looking for something special?

Skráðu þig á póstlista Íslenskra Fjallaleiðsögumanna!

* verður að vera útfyllt

Hafa samband

This site is protected by reCAPTCHA and the Google Privacy Policy and Terms of Service apply.